144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi.

11. mál
[14:46]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem hæstv. ráðherra fylgir hér úr hlaði um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi er, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, byggt að meginhluta til á lögum nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, sem sett voru í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þau voru með sólarlagsákvæði og það ákvæði var látið renna út um síðustu áramót, 2013/2014, ef ég man rétt, af núverandi hæstv. ríkisstjórn. Hér kemur fram nýtt frumvarp sem er byggt að meginatriðum á eldri lögunum og er hugsað sem heildarlög utan um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi sem eiga að mynda ramma utan um það hvaða ívilnanir stjórnvöldum er heimilt að veita og eftir atvikum sveitarfélögum í því skyni að fjölga nýfjárfestingarverkefnum utan höfuðborgarsvæðisins.

Fyrir það fyrsta vil ég segja að við fyrsta yfirlestur, með fyrirvara um vinnu nefndarinnar sem ég á sæti í, lýst mér mjög vel á það sem hér er sett fram. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að vera með góðan lagaramma í þessum efnum og við þurfum að taka þátt í þeirri hörðu samkeppni sem er úti um allan heim, sérstaklega við nágrannalönd okkar sem eru með lög um ívilnanasamninga og veita ríkisstyrki til fyrirtækja sem vilja koma til viðkomandi lands en veita þarf ívilnanir eða eftir atvikum styrki á fyrstu árum rekstrarins.

Hæstv. ráðherra gat um að eftir að lög nr. 99/2010 voru samþykkt hefðu verið gerðir sex samningar um ívilnanir. Förum aðeins yfir þá.

Tökum fyrst Becromal norður á Akureyri, ívilnun til fyrirtækisins var byggð á þessum lögum. Það er fyrirtæki í rekstri sem veitir fjölda manns atvinnu og gengur vel eftir því sem best er vitað. Í öðru lagi vil ég nefna fyrirtækið Verne Global á sviði gagnageymslu og er staðsett á Suðurnesjum, sem fór líka af stað eftir slíkan samning. Í þriðja lagi má nefna fyrirtæki uppi í Hvalfirði, á Grundartanga, sem heitir GMR, sem er stálbræðslufyrirtæki. Fjórða fyrirtækið sem fékk ívilnanasamning var Marmeti, líka á Suðurnesjum, en eftir því sem ég best veit gerðist eitthvað þar sem var miður og ekki tókst að hefja starfsemi.

Eftir standa tveir samningar sem gerðir voru á síðasta kjörtímabili, það er annars vegar við Thorsil, sem ekki hefur komið til framkvæmda, og hins vegar Tomahawk Development, þar sem skipt var í raun og veru um eigendur, skipt um nafn, en er það fyrirtæki sem á að fara að byggja upp kísiliðnað í Helguvík.

Virðulegi forseti. Þessi upptalning á þessum sex fyrirtækjum, fjórum sem þegar eru komin í gang og fimmti samningurinn hefur í raun bara skipt um nafn en er líka í gangi, er kannski besta dæmið um gildi þessara samninga og þeirra laga sem sett voru í tíð síðustu ríkisstjórnar árið 2010. Þetta hefur gert það að verkum að þessi fyrirtæki eru ýmist komin í gang eða eiga eftir að fara í gang og aðeins hjá einu hefur eitthvað óheppilegt gerst.

Þar að auki, virðulegi forseti, voru á síðasta kjörtímabili sett sérlög um uppbyggingu á Bakka við Húsavík. Þar var nauðsynlegt að koma inn til þess að koma því verkefni af stað. Eins og við vitum er þýskt fyrirtæki að vinna þar að uppbyggingu og vonandi skýrist það á næstu vikum að sú framkvæmd fari í gang. Sérlög voru algjörlega nauðsynleg fyrir það verkefni og hafa gert að verkum að það er vonandi við það að fara í gang.

Það gerðist líka í tíð síðustu ríkisstjórnar og er gott dæmi um hvað hún vildi gera í atvinnuuppbyggingu — áðan vitnaði ég í öll þau verkefni sem eru komin í gang ásamt Bakka — og var merkilegt að ríkisvaldið, þáverandi ríkisstjórn, gerði samninginn, með gildistökuákvæði auðvitað, þó svo að verkefnið væri ekki komið í gang af hálfu þess sem ætlaði að byggja það upp, um að gera það sem þarf að gera þar. Ríkið var sem sagt á undan með ívilnanir og þess vegna eru t.d. verkefni í samgöngum milli hafnarinnar og iðnaðarsvæðisins tilbúin og ekki hefur þurft að bíða eftir því.

Öll þau atriði sem ég hef nefnt hér eru gott dæmi um nauðsyn þess að setja svona lög. Við verðum bara að viðurkenna það, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að þau eru nauðsynleg til þess að efla erlenda fjárfestingu og uppbyggingu atvinnutækifæra í landsbyggðarkjördæmunum þremur eins og kveðið er á um í þessu frumvarpi, þ.e. Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi.

Eins og ég sagði áðan erum við ekki að gera neitt annað en aðrar þjóðir gera. Hæstv. ráðherra gat þess að innan nokkurra daga yrðu send gögn um þetta til ESA, Eftirlitsstofnunar Evrópu, þannig að það ferli fer vonandi fljótt í gang og vinnst þá með vinnu nefndarinnar.

Ég tek undir það sem hér var sagt af hæstv. ráðherra að okkur liggur á að klára þessi lög. Vonandi mun þetta liggja ljóst fyrir fljótlega, þar með talið áætlað samþykki ESA, þannig að við gætum jafnvel klárað þetta fyrir jól.

Þetta vildi ég segja, virðulegi forseti, hér í 1. umr. um málið og þarf í raun og veru ekki að orðlengja meira um það. Ég lýsi mig hlynntan þessu verkefni, með þeim fyrirvara sem ég gat um hér áðan.

Ef einhver er í efa um að við þurfum að setja svona lög og vinna að þeim, sérstaklega gagnvart þessum þremur landsbyggðarkjördæmum, bendi ég fólki á að lesa kafla 2.4 á bls. 10. Þar er fjallað um það að á 20 ára tímabili frá 1993–2013 hefur íbúum fækkað mest á Vestfjörðum, eða um 26% og á Norðurlandi vestra um 16,8%. Einnig hefur fækkað á Austurlandi um 2,1%, þrátt fyrir byggingu álversins á Reyðarfirði. Við getum spurt okkur að því hver talan væri fyrir Austurland ef álverið hefði ekki verið byggt á Reyðarfirði. Það var tvímælalaust til mikilla hagsbóta fyrir svæðið og land og þjóð hvað varðar þau útflutningsverðmæti sem þar eru sköpuð.

Vonandi er því það sem sett er fram í frumvarpinu allt saman nokkuð klárt og engin óvissuatriði. Ég hlakka mjög til þess að atvinnuveganefnd taki málið til umfjöllunar, sendi það út til umsagnar sem fyrst og fái til sín gesti. Ég vona að við getum unnið þetta hratt og vel og það megi takast sem allra best.