144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi.

11. mál
[14:54]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna á þessu frumvarpi.

Þegar kemur almennt að ívilnunum til fjárfestinga er maður kannski ekki fylgjandi því að verið sé að ívilna einstökum fyrirtækjum, en þegar Ísland er í samkeppni við önnur ríki um að draga að og laða að arðbæra fjárfestingu sem skapar áhugaverð störf þurfum við kannski að gera eins og aðrar þjóðir og einnig þurfum við að huga að því að gera dreifbýlið samkeppnishæfara um verkefni.

Ég er með nokkrar ábendingar, kannski ekki síst til nefndarinnar sem mun fjalla um málið. Í þessu frumvarpi eins og mörgum öðrum sem koma frá ráðuneytum eru upphæðir ekki í lögeyri landsins. Í 3. gr. er t.d. miðað við upphæðir í evrum. Íslensk fyrirtæki gera öll upp í íslenskum lögeyri sem er undantekningarlaust króna og ég held að það sé erfitt fyrir fyrirtæki sem ætla að fara að lögum á Íslandi að þurfa að halda sérstakt bókhald í evrum til þess að sjá hvort þau séu að gera rétt miðað við hin ýmsu lög og reglugerðir sem Alþingi setur. Þess vegna held ég að almennt eigi að hvetja ráðuneyti og þá sem smíða frumvörp til að hafa upphæðir í íslenskum krónum. Ég held að það sé enginn áskilnaður um það hjá Evrópusambandinu að við notum eitthvað annað en okkar eigin lögeyri í þessu skyni. Ég held að það væri lagabót og hreinlegra og þægilegra fyrir þá sem eiga að fara eftir lögunum að þurfa ekki, hvenær sem gengið breytist, að velta fyrir sér hvort þeir séu farnir að brjóta lög. Þetta er almenn athugasemd.

Varðandi 5. gr., skilyrði fyrir veitingu ívilnana, þá er í e-lið sett það skilyrði að a.m.k. 75% af fjárfestingarkostnaði séu fjármögnuð án ríkisaðstoðar og þar af séu að lágmarki 20% fjármögnuð af eigin fé þess aðila sem sækja um ívilnun. Ég vil bara benda á að hugsanlega er þetta eitthvað loðið, vegna þess að 20% af 75% eru 15%, en ég veit ekki hvort hér er átt við 20% eða 15% af fjárfestingarkostnaðinum. Það er ágætt ef nefndin mundi gera þetta skýrara.

Hins vegar hef ég efnislega við þetta að athuga að mér finnst þetta gríðarlega lágt hlutfall, hvort sem það er 15% eða 20%, að aðeins 15–20% af fjárfestingunni komi af eigin fé. Kemur hitt þá hugsanlega að láni úr einhverjum innlendum bönkum eða fjármálastofnunum? Er þjóðin og þá innstæðuhafar í þeim bönkum að leggja fram allt það fé? Kemur einhver gjaldeyrir til landsins eða ekki? Ég sé ekkert um það. Kannski hefur það farið fram hjá mér, ég er bara að lesa þetta yfir, en ég sé ekki að hugað sé að jafnvægi í gjaldeyrisbúskap þjóðarinnar, að hann batni við þessa fjárfestingu. Það væri áreiðanlega til bóta. Eins og við vitum þá eru svona fjárfestingarverkefni oft dálítið framhlaðin; fyrst er mikið fjárfest í alls konar hlutum, byggingum, vélum, tækjum og búnaði. Þetta getur skapað mikið gjaldeyrisútstreymi til skamms tíma sem vonandi skapar einhverjar gjaldeyristekjur á móti til lengri tíma. Það þyrfti að huga að því í þessum reglum að við séum að róa í rétta átt að styrkja gjaldeyrisbúskap þjóðarinnar almennt, það sé svigrúm fyrir þá sveiflu sem kemur í upphafi og að hún sé fjármögnuð og helst af eigin fé. Það er atriði sem ég mundi beina til nefndarinnar að velta fyrir sér. Að vísu kemur orðið „útflutningur“ fyrir í h-lið 5. gr., en það er ekki gert að skilyrði að hugað sé að gjaldeyrisjöfnuði þjóðarinnar. Ég held að þurfi að gera það á öllum sviðum ef vel á að fara í því efni til lengdar.

Annað um fjármögnun slíkra verkefna, ég mundi vilja gera það að skilyrði varðandi fjármagnið, sem kemur hugsanlega erlendis frá, að gætt sé að öllum reglum um peningaþvætti og við setjum þá reglu til viðbótar, af því að hér er um að ræða ívilnanir, að fjármagnið komi frá ríkjum sem virða mannréttindi og leika eftir sömu leikreglum og gilda á Íslandi. Þetta er kannski nýr punktur, en hann er ekki að ástæðulausu. Ég held að Ísland ætti ekki að sækjast eftir fjárfestingu frá ríkjum eða samfélögum eða fjárfestum sem geta ekki sýnt fram á að fé til fjárfestinga hafi verið fengið án þess að brjóta mannréttindi.

Í 12. gr. er fjallað um mat á arðsemi, sem er eitt af þeim skilyrðum sem eru gerð hér. Það horfir hins vegar einkennilega við að í annarri setningu greinarinnar segir: „Aðili skal jafnframt sýna fram á að án ívilnana verði fjárfestingin ekki arðbær.“

Ætlum við að velja sérstaklega óarðbærar fjárfestingar til landsins og til héraða í hinum dreifðu byggðum? Er það hin bjarta framtíð?

Ég mundi vilja að menn velti því fyrir sér hvort þeir vilji gera þetta að sérstöku skilyrði. Ef við ættum tvo kosti, að velja fyrirtæki til landsins sem er mjög arðbært og getur greitt mikla skatta og er frábært fyrirtæki, eða fyrirtæki sem getur sýnt fram á að það sé einmitt ekki frábært fyrirtæki heldur rétt svo tóri nema það fái ívilnun, hvort fyrirtækið mundi fólkið vilja fá á staðinn? Ég er ekki í nokkrum einasta vafa. Ég velti því bara fyrir mér hvers vegna þetta þurfi að standa þarna. Kannski á ég eftir að fræðast um það.

Þetta er það fyrsta sem manni dettur í hug við lesturinn og ég beini til hinnar ágætu hv. atvinnumálanefndar að skoða þetta. Ef sú ágæta nefnd vill óska eftir umsögn frá efnahags- og viðskiptanefnd um einhver atriði þá er það örugglega velkomið. Ég hef þetta ekki lengra að sinni.