144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi.

11. mál
[15:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru verulega góðar spurningar, sérstaklega um eigið fé. Um alla Evrópu, um allan heim, er skuldsetning ríkja og sveitarfélaga og fyrirtækja orðin uggvænlega há. Eins og kom hér fram þá hafa fyrirtæki á Íslandi og víðar rúllað vegna þess að þau hafa ekki verið útbúin með nægilega miklu eigin fé. Hér er lagt til ákveðið hlutfall af eigin fé, en það er bundið af reglum Evrópusambandsins um styrki til lítilla, stórra og meðalstórra fyrirtækja. Við erum því bundin af því og þetta frumvarp tekur náttúrlega töluvert mikinn lit af því sem Evrópusambandið ákveður og vill gera. En það er bara ekki til eftirbreytni, frú forseti, engan veginn. Staðan um alla Evrópu sýnir að skuldsetning er vandamál alls staðar. Við ættum frekar að stuðla að því að fyrirtæki séu vel útbúin með eigið fé en ekki lánsfé. Þetta frumvarp gerir ráð fyrir því að eigið fé geti verið mjög lítið og að lánsfé og skattaívilnanir eða ívilnanir taki yfir reksturinn.

Varðandi gjaldeyrisöflun þá er vandamál íslenska þjóðfélagsins — og gjaldeyrishöftin eru merki um það — að við sköpum ekki nógu mikinn gjaldeyri, við framleiðum ekki nógu mikinn gjaldeyri. Þetta er vandamál. Ég mundi gjarnan vilja að sú nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar skoði það hvort setja þurfi ákvæði um að þessi fyrirtæki brenni ekki upp gjaldeyri, fyrirtæki sem varla bera sig og þurfa ívilnun. Þau skaffi að minnsta kosti meiri gjaldeyri á fimm eða tíu ára bili en þau eyða. Ég held að það sé mjög góður punktur til að ræða og fagna því að hv. þingmaður hefur svona mikinn áhuga á því.