144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi.

11. mál
[15:22]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar og heyri að við deilum áhyggjum af því að hér eigi að leggja af stað út í rekstur með svo lítið eigið fé. Afgangurinn hlýtur að vera lánsfé frá bönkum sem hugsanlega geta valdið ýmissi óreiðu í íslensku hagkerfi, séu þeir að fjárfesta í áhættusömum verkefnum, og síðan frá ívilnunum sem eiga að gera þetta á einhvern hátt arðbærara.

Ég vil ræða aðeins við hv. þingmann um 12. gr., um mat á arðsemi, þar sem segir að sýnt skuli fram á að án ívilnunar verði fjárfestingin ekki arðbær. Ég geri mér grein fyrir því að með svona ívilnun á annaðhvort að telja stofnendur þessara fyrirtækja á að fara á einhvern stað sem er ef til vill ekki eins hagkvæmur og sá sem þeir hefðu annars valið, eða að velja sér land eða landsfjórðung út frá ívilnunum. Það eigi að vera einhver samkeppni milli landsfjórðunga og landa um að ívilna fyrirtækjum og fá til sín atvinnuskapandi og arðbær fyrirtæki, en samkeppnin getur ekki staðið um að laða til sín óarðbær fyrirtæki.