144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi.

11. mál
[15:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt þetta ákvæði í 12. gr., og 6. gr., sem gerir það að verkum að ég get varla lesið þetta, þetta er svo ógeðfellt. Þar er verið að segja að hingað skuli koma fyrirtæki sem eru ekki arðbær. Það er hreinlega verið að segja það. Sem þýðir að það er til tjóns fyrir land og þjóð að fá þessi fyrirtæki hingað, því það er síðan alltaf ákveðin áhætta í öllum rekstri. Fyrirtæki sem eru ekki arðbær eða varla arðbær nema með ívilnunum; þau hoppa kannski yfir í að verða arðbær með því að fá ívilnanir, en svo getur eitthvað gerst í rekstrinum og þá er fyrirtækið ekki lengur arðbært og fer á hausinn. Þetta er allt fremur brösulegt, frú forseti. Þess vegna er ég mjög efins um stuðning minn við þetta mál.