144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi.

11. mál
[15:24]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil sem fyrr þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Ég er ánægð að heyra að menn eru hlynntir þessu að mestu leyti og geri mér vonir um að þetta frumvarp þurfi ekki að taka langan tíma í meðförum þingsins. Þó hvet ég hv. nefnd að sjálfsögðu til að ígrunda vel þau atriði sem hér hafa verið nefnd.

Við hv. þm. Pétur H. Blöndal vil ég segja að ég er svo sannarlega sammála þingmanninum um það að við eigum að sjálfsögðu að stefna að almennum reglum, lágum sköttum og einföldu regluverki. Ég þreytist ekki á að segja hv. þingmanni söguna af því þegar ég stóð hér stolt í jómfrúrræðu minni á þingi árið 2007 og fagnaði því að það mál sem við vorum þá að ræða snerist um að álverið í Straumsvík óskaði eftir því að vera losað undan sérsamningum og komast inn í íslenska skattkerfið vegna þess að það var orðið betra en samningurinn. Þangað erum við og eigum að sjálfsögðu að stefna. Þangað til er veruleikinn sá, eins og ég gat um í ræðu minni og það er ástæðan fyrir því að við erum með þetta frumvarp, að við erum að keppa um nýfjárfestingar, ekki hér á milli landsvæða heldur alþjóðlega.

Þær greinar sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni, það má hugsanlega, og ég hvet nefndina til að skoða það, bæta orðalagið, kannski er „að án ívilnana verði ekki af fjárfestingunni“ betra. Við erum að keppa við önnur lönd um nýfjárfestingu og það er oft hér úti í miðju Atlantshafi sem ákveðnir þættir eru kostnaðarsamari en annars staðar. Það er fjarlægð frá mörkuðum, það er flutningskostnaður og annað. Þannig að hugsunin er sú að fjárfestingin sé þannig að án ívilnana yrði henni hugsanlega valinn staður annars staðar. Við viljum að hún komi hingað og þá verðum við og teljum mikilvægt að leggja þetta til.

Upphæðir í íslenskum krónum, mér finnst sjálfsagt að nefndin skoði það. Ég veit að hv. þingmaður er áhugamaður um þetta. Ég geri engar athugasemdir við að það sé skoðað og get ekki ímyndað mér að það verði vandamál.

5. gr. varðandi 15 eða 20% eigið fé, þetta kemur úr ríkisstyrkjareglunum. Við erum að vinna þetta frumvarp eftir þeirri forskrift sem þær reglur eru. Þess vegna tekur það mið af þeim.

Hér hefur verið nefnt og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði það að umtalsefni og lýsti því sem skoðun sinni að jákvætt væri að við værum í eftirgjöf á sköttum og opinberum gjöldum en ekki í beinum styrkjum. Þar er ég sammála, en það er nákvæmlega það sem við erum að keppa um við önnur lönd. Til að mynda eru frændur okkar Norðmenn í sumum atvinnugreinum að bjóða hreinlega upp á styrki til fyrirtækja sem eru að setjast þar að, þannig að við erum ekki með sömu samkeppnisstöðu og þau, en ég tel að við séum þarna að fara ágæta leið til þess að tryggja hér aukningu í fjárfestingu.

Hv. þm. Kristján L. Möller fór yfir þá samninga sem gerðir hafa verið. Þau tvö verkefni sem ekki eru komin til framkvæmda, annars vegar Thorsil og hins vegar Tomahawk, hafa eins og hann nefndi í raun skipt um nafn. Við höfum skrifað undir fjárfestingarsamning við fyrirtækið Thorsil. Þeir hafa flutt sig til Helguvíkur sem og það sem áður var Tomahawk, þar hafa orðið eigendaskipti og er nú United Silicon sem er farið af stað.

Fyrir utan þessi verkefni get ég nefnt að við tókum á fyrra þingi í gegn fjárfestingarsamning sem gerður var við líftæknifyrirtækið Algalíf sem passar inn í þennan ramma, og allir þeir samningar sem við höfum verið að gera síðan þessi ríkisstjórn tók við passar inn í þann ramma sem um ræðir.

Virðulegur forseti. Ég veit að nefndin tekur þetta til vandlegrar skoðunar og ég vona að málið fái greiða leið í gegnum þingið.