144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[15:59]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil bregðast aðeins við athugasemdum hv. þingmanns og þakka þær.

Þetta mál snýst ekki um losun á koltvísýringi. Það snýst um bætta orkunýtni og er óháð losuninni þannig að, já, þetta á við á Íslandi. Þetta snýst í raun um það hvernig við notum orkuna. Það getur vel verið að mönnum finnist að við þurfum ekkert að hugsa um það, við höfum nóga orku, en við eigum að hugsa um það vegna þess að við getum þá notað orkuna í annað.

Hér er ekki verið að tala um verri búnað með minna afli, hér er ekki stóra ryksugumálið á ferðinni, ef ég má segja svo. Það er verið að hvetja til þess að nota búnað sem nýtir orkuna betur. Ef við notum þannig búnað getum við notað orkuna í annað, við fáum lægra raforkuverð til heimilanna þar sem rafmagnstækin nota minni orku og við getum notað hana í annað. Ég minnist þess sem iðnaðarráðherra að við stóðum frammi fyrir skerðingum á síðasta ári vegna bágrar lónstöðu. Það þýðir að þó að við eigum mikið af orku er hún ekki óþrjótandi. Og ég held að það sé skynsamlegt, ef við hugsum þetta þannig, að leita leiða til fara vel með orkuna, við þurfum að leita leiða til þess hér sem og annars staðar.

Þetta vildi ég sagt hafa en að öðru leyti vil ég þakka fyrir umræðuna.