144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[16:06]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra bendir á að athugasemdin hefði þurft að koma fram fyrr, ég held fyrir tíu eða fimmtán árum. Núna getum við ekkert sagt og nú á Alþingi Íslands bara að vera stimpilpúði fyrir það sem embættismönnum Evrópusambandsins dettur í hug að innleiða hér á Íslandi.

Ég andmæli því. Ég held að við eigum alltaf að velta því fyrir okkur sem þingmenn hvort tilskipanir sem þessar eigi erindi og við eigum ekki að taka því sem gefnum hlut að Evrópska efnahagssvæðið og samkomulagið þar sé algjörlega óumbreytanlegt og ekki sé hægt að koma neinum skynsamlegum rökum á framfæri. Til þess er EFTA-dómstóllinn, hann er vettvangur fyrir okkur til þess að færa rök fyrir því að það sé alls ekki neinn skaði og engin ástæða fyrir Evrópusambandið að innleiða íþyngjandi reglugerðir á Íslandi sem eiga hugsanlega fullt erindi annars staðar.

Það á ekki að gefast upp á því að bæta samninginn um Evrópska efnahagssvæðið vegna þess að það mundi enda með þeim ósköpum að við gæfumst einn góðan veðurdag upp á því að vera í Evrópska efnahagssvæðinu. Ég hef meiri trú á því að við eigum að hafa þetta lifandi samning, hann eigi að taka tillit til raunveruleikans og hagsmuna þeirra ríkja sem tengjast honum. Þannig færi best á samstarfinu.

Að sjálfsögðu mun það gera húsbyggingar kostnaðarsamari og nýju íbúðirnar handa unga fólkinu dýrari ef þær þurfa að uppfylla einangrunarkröfur sem gerðar eru í ríkjum þar sem kynt er með olíu og kostnaður til húshitunar er tíu sinnum meiri. Það er algjörlega skynsamlegt þar að gera slíkar kröfur. En það er á engan hátt hagkvæmt á Íslandi og bitnar bara á þeim sem við hefðum síst viljað að það bitnaði á, þ.e. unga fólkinu sem er að koma sér þaki yfir höfuðið. Þetta er einmitt reglugerð sem mun auka kostnað þess. Ég held að við eigum að taka þetta mál sérstaklega fyrir í tengslum við það hvernig við eigum að undanskilja Ísland þessum kafla um visthönnun vöru sem notar orku og tengist orkunotkun.