144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

merkingar og upplýsingaskylda varðandi orkunotkun heimilistækja.

99. mál
[16:21]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil mótmæla því að það sé af hræðslu við Evrópusambandið sem við erum að klára innleiðingarhallann sem fyrrverandi ríkisstjórn skildi eftir sig. Auðvitað snýst þetta í grunninn bara um það. Við erum í samstarfi um Evrópska efnahagssvæðið, samstarfi sem við af fúsum og frjálsum vilja undirgengumst og við erum þar þátttakendur. Þetta snýst ekki um að skoða ekki málin út í hörgul, það á að sjálfsögðu að skoða mál út í hörgul. Ég dreg það ekkert í efa að hv. formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Birgir Ármannsson, stendur sig afar vel í því að sinna þeim málum sem á hans borði lenda.

Þetta snýst líka um það að þau mál sem við erum sannarlega skuldbundin til að taka upp og eru komin í ákveðinn farveg, hvort sem það er kæra eða svokallað „reasoned opinion“, afsakið að ég skuli sletta, herra forseti, það er ekki bara að þetta taki tíma frá okkar smáu stjórnsýslu við að sinna kærum og kvörtunum heldur kostar það stórfé. Ég tel að við eigum að koma okkur í þá stöðu að við getum einbeitt okkur að þeim málum sem eru á þeim stigum þar sem við getum og höfum sannarlega tækifæri til að gera athugasemdir og afgreiða þau, þegar við höfum gert á þeim allar þær breytingar sem við teljum skynsamlegar, en vera ekki að drattast með þau í löngum röðum fyrir EFTA-dómstólnum eða fyrir ESA. Ég held að það sé öllum til hagsbóta.