144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

merkingar og upplýsingaskylda varðandi orkunotkun heimilistækja.

99. mál
[16:43]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það skilur varla nokkur maður af hverju ég er ekki sammála öllu sem hæstv. ráðherra segir. En hún hefur sterka trú á að þetta sé hægt. Það er jákvætt, trúin flytur fjöll og það er margt hægt að gera ef menn eru bjartsýnir og hafa trú á því sem þeir eru að gera.

Ég óttast það hins vegar að ríkisstjórnin deili ekki þeirri fjallgrimmu vissu hæstv. ráðherra um að þetta sé hægt. Ef hún gerði það hefði hún látið meira fjármagn til málaflokksins. (Gripið fram í.) Það hefur hún ekki gert. Þá segir hæstv. ráðherra: Það þarf að forgangsraða. Þá verður hæstv. ráðherra að rifja það upp í sínu góða minni að það voru engir nýir ráðnir í utanríkisráðuneytið til að sinna Evrópumálum. Það má vel vera að gengið hafi verið á fyrningar þar, ég ætla ekki að segja að þær séu eyddar, en vissulega væri örugglega hægt að forgangsraða þannig að hægt væri að setja meiri mannafla til sendiráðsins í Brussel. En það hefur ekki verið gert að neinu sérstöku marki. Það er einfaldlega þannig. Hins vegar er hárrétt hjá ráðherra að það eru margir mjög góðir starfsmenn í utanríkisráðuneytinu sem hafa mikla þekkingu á einmitt þessum málaflokkum.

Oft er það þannig eins og t.d. varðandi mál sem við höfum verið að ræða hér í dag, visthönnun vöru, neytendamerkingar, að það eru sérfræðingarnir innan ráðuneytanna sem eru best til þess fallnir að fjalla um slík mál. Það vill svo til, sökum smæðar íslensks samfélags, að í ráðuneytunum höfum við á mörgum stöðum einstaklega hæfa einstaklinga sem eru mjög fjölhæfir. Sérfræðingar íslensku ráðuneytanna eru fjölfræðingar, hafa það umfram marga kollega sína erlendis. Þau þurfa að sinna mjög mörgum málum og eru ákaflega vel að sér á víðu sviði. (Forseti hringir.) Þetta er fólkið sem á að sinna þessari vinnu úti í Evrópusambandinu. (Forseti hringir.) Þetta er fólkið sem menn reyndu áður fyrr að senda þangað sem fulltrúa ráðuneytanna, (Forseti hringir.) en þessi ríkisstjórn sér ekki af peningum til þess.