144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu.

154. mál
[17:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sannarlega ánægður með þetta frumvarp. Eins og hæstv. ráðherra man þá gekk ég eftir því við hann með fyrirspurn á síðasta þingi hvenær hann mundi leggja frumvarpið fram og nú hefur hann gert það. Mér sýnist að þetta sé hið prýðilegasta verk allt saman.

Það eru tvær spurningar sem ég vildi velta til hans. Í fyrsta lagi ef þetta verður gert að lögum, með hvaða hætti getum við þá tengt þetta erlendu regluverki þannig að íslenskar afurðir njóti alþjóðlegrar verndar? Af því leiðir síðari spurningin um það sem ég tel langmikilvægast, það er auðvitað blessað íslenska skyrið. Ég tel að fram undan sé mikill uppgangur fyrir það á erlendum mörkuðum. Mjólkuriðnaðurinn á Íslandi hefur tekið við sér í útflutningi á skyri og er einnig að leita hófanna með að setja upp framleiðslu á skyri í löndum fjarri Íslandi, framleiðslu sem byggir á íslenskri þekkingu. Þetta er þekkingariðnaður fyrst og fremst.

Seinni spurningin er þessi: Felur þetta í sér að vöruheitið skyr njóti verndar utan Íslands? Leiðir þetta til þess að það geti ekki komið einhverjir „kabbojar“ og farið að framleiða vöru sem heitir skyr?