144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu.

154. mál
[17:10]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og þekki áhuga hans á málinu. Ég býst við að hér í þinginu séu margir sammála okkur hv. þingmanni um að þetta sé mál til bóta. En hvort við getum vænst þess að erlendir aðilar viðurkenni okkar afurðarheiti, ef varan hefur sem sagt farið í gegnum skráningu hér og uppfyllt öll skilyrði og fengið þetta gæðavottorð, þá er það auðvitað hugmyndafræðin með því að leggja þetta frumvarp fram. Þá séum við komnir með stöðu til þess í gagnkvæmum samningum við önnur svæði þangað sem við flytjum vöruna út, að hún njóti sams konar stöðu. Þess vegna er það augljóst að við þurfum að gera slíkt hið sama gagnvart sambærilega vottuðum vörum annars staðar frá.

Skyrið hefur verið talsvert til umræðu. Í því sambandi er rétt að benda á að fetaostur hefur verið framleiddur mjög víða og með öðruvísi aðferðum en Grikkirnir nota, sem áttu þetta upphaflega, en samt sem áður á grunni þeirra aðferða. Þeir hafa staðið í baráttu í mjög mörg ár fyrir því að fá slíka viðurkenningu fyrir fetaostinn. Það getur vel verið að við lendum í sambærilegri stöðu með skyrið vegna þess að við erum kannski fyrst núna að fara af stað með þetta. Og eins og hv. þingmaður minntist á er þetta þekkingariðnaður. Við erum í raun og veru að fá vernd á ákveðna aðferðafræði sem hér hefur lifað í gegnum aldir en hefur á síðustu árum hlotið mikla útbreiðslu vegna þess að afurðin er góð og passar vel inn í lýðheilsumarkmið mjög margra þjóða og hefur þar af leiðandi átt greiða leið inn í markaðshillur stórverslana bæði vestan hafs og austan.

Ég get ekki svarað því (Forseti hringir.) hvort það sé öruggt að skyr eigi þennan möguleika en ég tel að það sé alla vega hægt að fara sömu leið(Forseti hringir.) og Grikkir. Það getur vel verið að það þyrfti að berjast fyrir því í einhver ár.