144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu.

154. mál
[17:13]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég taldi að til dæmis Grikkirnir hefðu náð þessari viðurkenningu á fetaostinum og það mættu þá ekki aðrir framleiða hann, en það er framleiðsla sem er tiltölulega einföld. Það eru ekki flóknar aðferðir sem liggja þar að baki.

Það sama gildir um skyrið. Þetta er í grundvallaratriðum einföld síun sem er ekki flókin framleiðsla en hún er sérstök og aðrir hafa týnt henni niður. Skyrgerð tíðkaðist í öllum nágrannalöndunum í kringum árið 1000 og upp úr því en menn týndu niður aðferðinni. Við héldum henni við. Elstu matarleifar sem eru til á landinu eru skyrleifar í gömlum trogum, skyrsáum sem er að finna í Þjóðminjasafninu. Einn af kollegum okkar og forveri hæstv. landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, heldur því fram að það sé skyr úr trogum Gunnars á Hlíðarenda, einskis annars.

Það skiptir mjög miklu máli að okkur takist með þessum lögum að ná vernd fyrir skyrið. Ég held að það verði mjög mikilvæg útflutningsafurð og ef við getum ekki verndað það sem sérstakt heiti þá er líklegt að aðrir reyni síðar að líkja eftir því. Það verður ekkert mjög erfitt og við þurfum að vernda þetta. Ég skil það svo og veit það reyndar að að því er varðar aðra framleiðslu, framleiðslu á léttum og brenndum drykkjum, þá grípur hún og vernd slíks varnings inn í EES-samninginn, en þótt ég viti ýmislegt um EES-samninginn þá er ég ekki endilega viss um að það sé til staðar bein tenging inn í regluverk Evrópusambandsins. Kannski getur hæstv. ráðherra svarað því, ef ekki þá skoðum við það síðar. En ef svarið er neikvætt er það þannig að þetta mál hófst í samningum milli Evrópusambandsins og Íslands varðandi gagnkvæma kvóta, ég held einhvern tíma 2007 eða 2008, og slíkir samningar standa yfir núna og ég hvet hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því að viðurkenning á lögunum, (Forseti hringir.) ef samþykkt verða, verði partur af því samkomulagi og þar með verði skyrið verndað, a.m.k. innan ESB.