144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

forgangsröðun í fjárlagafrumvarpinu.

[15:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra hefur ekki kynnt sér hvernig þetta mál liggur í raun og veru. Það er engin þörf á því að draga úr nemendaígildunum út af hugmyndum um styttingu framhaldsskólans. Þvert á móti er það sjálfstæð ákvörðun.

Það sem hann segir hér um að það verði aðrir kostir í boði fyrir þá sem vilja fara í framhaldsnám er líka rangt. Það er ekkert fé ætlað til þess að skapa þau tækifæri. Það er ekki veitt aukið fé í símenntun eða önnur tækifæri fyrir það fólk sem á að útiloka úr framhaldsskólunum.

Skilaboð Sjálfstæðisflokksins í menntamálum eru ósköp einföld: Það á að draga úr vali. Það á að draga úr tækifærum fyrir fólk. Og það á sérstaklega að þrengja að fólki í verknám. Það er auðvitað þar sem skórinn kreppir í arðsemi menntunar þjóðarinnar, að við eigum ekki nægan mannauð með framhaldsmenntun. Okkur skortir sárlega meiri verkmenntun. Þá er akkúrat þrengt þar að. Fyrir því eru hvorki fjárhagsleg rök né þjóðhagsleg.