144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

lán Seðlabanka til Kaupþings 2008.

[15:14]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Í dag er 6. október og það er mánudagur. Það eru sex ár síðan það var mánudagur 6. október og þá gekk aldeilis mikið á í þingsal. Þá hrundi fyrsti stóri bankinn af þremur á Íslandi og atburðarás hófst sem við nefnum einfaldlega hrunið og höfum verið að glíma við síðan í alls konar vandamálum.

Nú berast fregnir af því að sérstakur saksóknari sé blessunarlega að koma málum inn í réttarsal þar sem meðal annars er réttað út af alls konar ákvörðunum bankastjórnenda og heilla stjórna sparisjóðanna tengdum lánveitingum í aðdraganda og eftirleik hrunsins. Ýmislegt bendir til þess að ákvarðanir vegna lánveitinga milli aðila hafi verið ólöglegar, ekki hafi verið farið eftir settum lánareglum og lögum eða að um umboðssvik hafi verið að ræða og þar fram eftir götunum.

Seðlabankinn veitti þennan dag fyrir sex árum eitt stórt lán. Stór hluti gjaldeyrisvarasjóðsins fór í lánveitingu til Kaupþings með veði í FIH-bankanum. Spurning mín er í tilefni dagsins og af því tilefni að verið er að gera upp hrunið og alls konar ákvarðanir. Komið hefur í ljós að þessi lánveiting mun kosta opinbera sjóði hátt í 40 milljarða vegna þess að veðið í FIH-banka reyndist ekki traust. Ýmislegt hefur verið fullyrt og komið í ljós sem bendir til þess að ákvörðunartaka varðandi þessa lánveitingu hafi alls ekki verið í samræmi við eðlilega verklagsferla né við lög og reglur. (Forseti hringir.)

Mig langar að spyrja hæstv. forsætis- og dómsmálaráðherra (Forseti hringir.) hvort hann telji að þessi lánveiting hafi verið í samræmi við lög og reglur.