144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

lán Seðlabanka til Kaupþings 2008.

[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Varðandi þemaspurningu hv. þingmanns í tilefni dagsins verð ég að byrja á að minna hann á að þótt ég sé dómsmálaráðherra dæmi ég ekki í málum. Ég ætla ekki að dæma í þessu máli og hef svo sem ekki aðstöðu til að rannsaka það. Það hefur hins vegar verið gert, það hefur verið fjallað sérstaklega um þetta mál, m.a. í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það er alveg ljóst að það er rétt sem hv. þingmaður segir, verklagsferlar í þessu máli eins og svo fjölmörgum öðrum á þessu tímabili voru ekki alveg hefðbundnir.

Þetta lán er veitt gegn veði sem á þeim tíma var töluvert verðmætara en nam upphæð lánsins og hefði verið hægt, a.m.k. alllengi, að innleysa það veð á hærra verði en nam láninu. Hvað varðar ákvörðunina um að taka lánið ætla ég að eftirláta öðrum þar til bærum aðilum að meta það eins og hefur að nokkru leyti verið gert.