144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

lán Seðlabanka til Kaupþings 2008.

[15:17]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Já, það hefur að nokkru leyti verið gert og það er ekki síst tilefni spurningarinnar vegna þess að það hefur verið fullyrt og staðfest frammi fyrir efnahags- og viðskiptanefnd á síðasta kjörtímabili að þetta risastóra lán sem hefur haft svona miklar fjárhagslegar afleiðingar fyrir opinbera sjóði var ekki veitt í samræmi við verklagsreglur bankans um það hvernig eigi að veita þrautavaralán. Það hefur líka komið í ljós við yfirferð á síðasta kjörtímabili efnahags- og viðskiptanefndar að öll gögn í málinu hafa ekki komið fram. Það virðist sem stór hluti ákvörðunarinnar um þetta lán hafi verið tekinn í símtali þáverandi bankastjóra Seðlabankans og formanns bankastjórnar, Davíðs Oddssonar, og þáverandi forsætisráðherra, Geirs Haardes. Þetta símtal hefur ekki verið gert opinbert.

Ég er ekki að biðja hæstv. dómsmála- og forsætisráðherra að dæma í málinu hér og nú, enda væri það mjög gerræðislegt. Ég er bara að biðja um álit hans. Er það ekki alvarlegt (Forseti hringir.) ef svona stórt lán, þrautavaralán, er veitt án þess að farið sé eftir verklagsreglum um það hvernig eigi að veita slík lán? (Forseti hringir.) Vildi hæstv. forsætisráðherra að það hefði verið gert aftur í íslensku samfélagi? Hefur hann ekki einhverja skoðun á því?