144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

niðurskurður til embættis sérstaks saksóknara.

[15:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það ber vel í veiði að fylgja þessu eftir með fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra um málefni sérstaks saksóknara.

Í fjárlagafrumvarpinu er boðaður áframhaldandi niðurskurður á fjárveitingum til embættisins þannig að fjárheimildir þess fari úr 561 milljón á þessu ári niður í 292 á næsta ári, sem sagt um helmingsniðurskurður og það ofan í verulegan samdrátt fjárheimilda á þessu ári og mikinn ef tekið er tillit til uppsafnaðra fjárheimilda. Mest var umfang embættisins á árinu 2012 þegar fjárveitingar til þess voru 1,3 milljarðar kr. Við erum því að tala um að embættið sé á næsta ári komið niður fyrir ¼ af því sem það var fyrir fáeinum árum. Afleiðingarnar af þessu eru þegar farnar að koma fram; 16 starfsmönnum var sagt upp nú á dögunum, þar af 8 lögreglumönnum sem fá lausn frá embætti strax 1. nóvember nk. Boðað er að sérstakur saksóknari verði að segja upp 30 manns í viðbót um næstu áramót ef ekki fæst fram breyting á fjárlagafrumvarpinu.

Gangi þetta eftir er nokkuð ljóst að embættið mun rétt ná að sinna málum sem þegar eru komin til kasta dómstóla. Embættið mun með öðrum orðum nánast ekkert geta sinnt rannsóknum eða nýjum málum. Þá má velta fyrir sér til hvers á að fara að kaupa upplýsingar, eins og mögulegt er, um skattaundanskot ef enginn verður í færum til að fara með saksókn í þeim málum komi upplýsingar að gagni til slíks.

Í viðtali við sérstakan saksóknara í vefritinu Kjarnanum kemur fram að saksóknari hafi óskað eftir fundi með hæstv. forsætis- og dómsmálaráðherra og muni fara fram á einhverjar lagfæringar.

Spurningin er því: Hvað getur hæstv. forsætis- og dómsmálaráðherra upplýst okkur á þessari stundu um líkurnar á því að verulega verði greitt úr vanda embættisins hvað þetta snertir, t.d. þannig að að lágmarki þurfi ekki að koma til frekari uppsagna?