144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

niðurskurður til embættis sérstaks saksóknara.

[15:21]
Horfa

forsætis- og dómsmálaráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þegar því embætti sem hv. þingmaður spyr um var komið á fót var gert ráð fyrir að það mundi starfa í fimm ár og til þess yrði varið rúmum 5 milljörðum kr. — rúmum 5 þús. millj. kr. Síðasta ríkisstjórn, sem hv. þingmaður átti sæti í, hélt sig við þær áætlanir sem gerðar voru í upphafi um starfstíma og kostnað við þetta embætti. Nú er ljóst að enn er ólokið allmörgum málum hjá embættinu þótt liðinn sé sá tími sem gert var ráð fyrir að það mundi starfa. En á sama tíma er í gangi vinna við endurskipulagningu og framtíðarfyrirkomulag ákæruvalds í landinu. Í þeirri vinnu verður augljóslega litið til þessarar stöðu og hún tekin með í reikninginn, svoleiðis að þar verði grundvallaratriði að sú vinna sem hefur verið unnin á undanförnum árum spillist ekki heldur nýtist í framhaldinu og menn nái sem mestum árangri við að sinna þeim markmiðum sem saksóknurum eru ætluð.

Ég get því ekki annað en fullvissað hv. þingmann um það að sú vinna sem er yfirstandandi núna eigi að leiða til þess að vinnan sem hefur verið unnin hjá sérstökum saksóknara og öðrum embættum saksóknara spillist ekki heldur skili sem mestum árangri.