144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

niðurskurður til embættis sérstaks saksóknara.

[15:25]
Horfa

forsætis- og dómsmálaráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt að meðferð annarra efnahagsbrota var færð undir embættið á tímabilinu og fjárframlög aukin til samræmis við það, umfram þær 5.030 milljónir sem gert var ráð fyrir í upphafi.

Hv. þingmaður nefndi það í fyrri fyrirspurn að hann hefði lesið það á einhverjum vefmiðli að sérstakur saksóknari hefði óskað eftir fundi. Sérstakur saksóknari hefur þegar fundað með embættismönnum í innanríkisráðuneytinu og mun áfram eiga gott samstarf við það ráðuneyti á meðan þessi vinna fer fram.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan við hv. þingmann: Það er alger óþarfi fyrir hann að reyna að ala á tortryggni eða búa til æsing eða gefa í skyn að menn ætli á einhvern hátt að veikja réttarkerfið. Þvert á móti, með þeirri vinnu sem nú stendur yfir, stendur til að styrkja fyrirkomulag ákæruvalds á Íslandi. Þar verður að sjálfsögðu staða sérstaks saksóknara og þeirra mála sem þar eru til vinnslu tekin með í reikninginn.