144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

samningur við meðferðarheimilið Háholt.

[15:26]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Í Fréttablaðinu í dag má lesa að velferðarráðuneytið hyggist gera tæplega 500 millj. kr. samning til þriggja ára um rekstur meðferðarheimilisins Háholts í Skagafirði þrátt fyrir að Barnaverndarstofa sé eindregið á móti endurnýjun slíks samnings.

Barnaverndarstofa bendir á að betra væri að nýta fjármuni í byggingu nýs húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu þar sem aðstaða er til að vista unga fanga og unglinga með svo fjölþætt vandamál að þau þurfa á að halda mjög miklu aðgengi að fagmenntuðu starfsfólki og sérhæfðum læknum og sálfræðingum.

Það kemur jafnframt fram í Fréttablaðinu í dag að það er ekki bara Barnaverndarstofa sem hefur þessa skoðun heldur byggir hún afstöðu sína á umsögnum allra barnaverndarnefnda á landinu um Háholt og í blaðinu kemur fram að það hafi séð þessar umsagnir og að reynsla sé almennt góð af starfsfólkinu í Háholti en að barnaverndarnefndunum um allt land þyki heimilið of afskekkt og of langt frá höfuðborgarsvæðinu. Það sætir furðu að ráðherra taki þessa ákvörðun í ljósi skoðana fagaðila og ég vil því spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra:

1. Af hverju tekur ráðherra ákvörðun þvert á faglegt mat Barnaverndarstofu?

2. Hvaða faglegu rök liggja að baki ákvörðun hæstv. ráðherra?

3. Telur hæstv. ráðherra sig vera að gæta velferðar barna fyrst og fremst með þessari ákvörðun?