144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

samningur við meðferðarheimilið Háholt.

[15:28]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þetta mál snýr að ákvörðun Alþingis um það að löggilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna. Í framhaldinu komu ábendingar um að til að við gætum uppfyllt skilyrði samningsins yrðum við að breyta því hvernig við höfum vistað unga fanga. Þá kom fram tillaga frá Barnaverndarstofu um að hægt væri að nýta aðstöðuna í Háholti.

Nú liggja fyrir samningsdrög um að vista unga fanga í Háholti, þá samningur til þriggja ára. Það er ákvæði í samningnum sem bendir til að hér séum við ekki að tala um framtíðarlausn heldur tímabundna lausn þannig að þá verði hægt að segja samningnum upp ef aðstæður breytast.

Þetta mat byggist á því að við í ráðuneytinu gerðum könnun, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, hjá barnaverndarnefndum hringinn í kringum landið þar sem við könnuðum líka hvort barnaverndarnefndir sæju fyrir sér að nýta þjónustu Háholts, ekki bara sem sneri að vistun ungra fanga. Þar kom fram mikil ánægja með þá 15 ára reynslu sem er af Háholti. Það kom að vísu líka fram, eins og kom fram í máli þingmannsins og þeirri blaðagrein sem var vitnað í, að gerðar voru athugasemdir við fjarlægð Háholts frá höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar þótti alveg ljóst að þarna væri mikil fagþekking og mjög faglega staðið að rekstri heimilisins.

Ég vil líka benda á að það hefur verið umfjöllun um að núna er vinna að hefjast um heildarendurskoðun á skipulagi félagsþjónustu og barnaverndar í landinu. Nefndin hefur að vísu ekki náð að halda sinn fyrsta fund. Þar á meðal er nefndinni gert að skila mér tillögum um staðsetningu á höfuðstöðvum nýrrar stjórnsýslustofnunar (Forseti hringir.) og starfsstöðva þessarar stofnunar. Ég vænti þess að fá tillögur, þá líka sem snúa að vistun ungra fanga (Forseti hringir.) og almennt hvernig hægt er að sinna úrræðum gagnvart þeim börnum sem þingmaðurinn nefndi.