144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

samningur við meðferðarheimilið Háholt.

[15:32]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig vera að svara spurningunum. Ég fór í gegnum hvernig aðdragandinn hefði verið að þessari ákvörðun og forsendur hennar. Ég benti líka á hvað hefði verið rétt sem kom fram í svörum barnaverndarnefnda og reyndi eftir bestu getu að svara spurningunum.

Það er ekki rétt sem þingmaðurinn sagði, að ekki hefði verið haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga. Í þeirri vinnu sem er núna að hefjast um endurskoðunina á skipulagi félagsþjónustu og barnaverndar er (Gripið fram í.) Samband íslenskra sveitarfélaga með fulltrúa sem (SII: Óskylt mál.)það tilnefndi. Nei, það er ekki rétt hjá hv. þingmanni, þetta er svo sannarlega mjög skylt mál vegna þess að þar er verið að huga að stjórnsýslu, félagsþjónustu og barnavernd á landsvísu, því hvernig við getum bætt það og tryggt að nærþjónustan (Gripið fram í.) sé sem næst notendunum, sem næst börnunum okkar, sem næst öldruðum, fötluðum og innflytjendum. Því sem snýr að stjórnsýslu og eftirliti má hins vegar koma í betra horf en það er í í dag.