144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

[15:37]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Á næstu vikum hyggst ríkisstjórnin lækka höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána. Umfangið mun taka mið af eftirspurninni eftir þeim rúmlega 70 milljörðum sem til ráðstöfunar eru. Fjármálaráðherra mun því gefa út þau vísitöluviðmið sem lækkunin mun miðast við.

Ég vil spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort það sé ekki örugglega svo að ríkisstjórnin ætli að gæta jafnræðis gagnvart þeim heimilum sem skulda verðtryggð lán. Ætlar ráðherra að leggja fram frumvarp um sambærilega höfuðstólslækkun fyrir þá sem skulda verðtryggð námslán? Hvenær mun hann leggja það frumvarp fram?

Eðli námslána er þannig að skuldarar greiða 3,75–4,75% af heildartekjum sínum af námslánaskuldum árlega en það svarar til um það bil eins mánaðar ráðstöfunartekna á ári. Þegar vísitala krónunnar hækkaði um 120% á innan við ári, þ.e. þegar íslenska krónan hrundi árið 2008 rétt eins og bankarnir fyrir sex árum, leiddi það til mikillar verðbólgu, höfuðstóll lánanna hækkaði en greiðslurnar voru auðvitað áfram í samræmi við tekjur. Launin lækkuðu í kjölfar hrunsins og því var afborgunin lægri þótt hún væri enn sama hlutfall af heildartekjum og það leiddi til enn frekari hækkunar lánanna þar sem minna var greitt af þeim.

Lífskjaraskerðingin veldur því þó að æ fleiri finna verulega fyrir greiðslubyrði námslána. Tæp 50% þeirra sem skulda námslán finna mikið eða verulega fyrir greiðslubyrði námslána samkvæmt kjarakönnun BHM. Æ fleiri eru líka að átta sig á því að þeim mun ekki endast starfsævin til að greiða upp lánin. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist eðlilegt að fólk sé að greiða af námslánum eftir að starfsævi lýkur eða með öðrum orðum, að ellilífeyrisþegar greiði 1/12 af lífeyri sínum í greiðslu af námslánum.

Frá árinu 1976 hafa námslán verið verðtryggð og endurgreiðslutíminn verið frá 20 upp í 40 ár. Árið 1992 var Sjálfstæðisflokkurinn líka með menntamálaráðuneytið og þá var lögunum breytt þannig að innheimta mætti vexti af lánunum og endurgreiðslutími væri ótakmarkaður, þ.e. að fólk skyldi greiða af lánunum þangað til þau væru að fullu uppgreidd eða lántaki hreinlega dæi.

Okkur er einnig orðið ljóst að breytingin nær út yfir gröf og dauða ábyrgðarmannanna. Ég tel fullvíst að frumvarpið hefði ekki verið samþykkt árið 1991 ef þingmenn hefðu áttað sig á því. Ætlar hæstv. ráðherra ekki örugglega að beita sér fyrir eða styðja breytingar á þessu ranglæti?

Lánasjóðurinn er ein mikilvægasta stofnun samfélagsins. Hann stuðlar að jöfnu aðgengi fólks að menntun óháð efnahag. Lengi vel voru lánin vaxtalaus enda var talið að vextir samfélagsins af lánveitingunum væri vel menntað fólk sem nýtti menntun sína til eflingar samfélagsins. Það er því mikilvægt að tryggja viðgang sjóðsins en jafnframt þurfa stjórnvöld að horfast í augu við það að við þurfum að bera sameiginlegan kostnað af því að mennta íbúa þessa lands.

Ríkisendurskoðun benti á það árið 2011 að endurskoða þyrfti lögin um sjóðinn og menntamálaráðherra í síðustu ríkisstjórn, hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, lagði fram frumvarp um ný heildarlög um sjóðinn. Umfangsmesta breytingin í því frumvarpi varðaði innleiðingu námsstyrkja. Í því fólst að námsmenn gætu fengið námsstyrk sem kæmi til úthlutunar að loknu námi í formi niðurfærslu á þegar teknu námsláni. Einnig var kveðið á um að ábyrgðir féllu niður þegar ábyrgðarmaður næði 67 ára aldri. Nýr menntamálaráðherra hefur ekki endurflutt frumvarpið en boðar nýtt frumvarp vorið 2015.

Lokaspurningar mínar til hæstv. ráðherra eru: Hvað er það sem hæstv. ráðherra er ekki sáttur við í frumvarpi fyrri ríkisstjórnar? Hvaða breytingar eru það sem hæstv. ráðherra vill gera í boðuðu frumvarpi um lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna?