144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

[15:48]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir þessa umræðu. Ég vona að hæstv. ráðherra svari betur þegar hann kemur í síðara sinn hér í pontu.

Það sem þarf að hafa í huga í þessari umræðu er, eins og drepið var á í upphafi, að það verður auðvitað lífskjaraskerðing hjá fólki sem er í námi eins og hjá öllum öðrum. Það er líka val — hæstv. ráðherra talaði um að í nánustu framtíð yrðu þetta 22 milljarðar sem færu í aðgerðina sem hér var nefnd — að fella niður lánin við 67 ára aldur. Þessi ríkisstjórn valdi að setja tugi milljarða í niðurgreiðslur til fólks og þær koma sér afar misjafnlega og sumir þurfa ekki á þeim að halda. Margir þeirra sem eru í námi og málið snýst um hafa lága framfærslu. Hann talaði líka um að þetta væri ekki gagnsætt og að töluverður námsstyrkur væri nú þegar í þessu kerfi. Er það jafnræði til náms sem þar birtist, hann ræddi um að það skilaði sér ekki nema hluti í endurgreiðslu, eða gætum við haft það skilvirkara með því að vera með gagnsærra námsstyrkjaform?

Eins og vitnað var til var hér frumvarp á síðasta þingi þar sem mælt var fyrir um sérstaka lánshæfismatsnefnd sem átti að meta hæfi til náms, þ.e. til lánshæfs náms. Ég tel að það hafi verið til mikilla bóta og komi til með að auka faglegan styrk ef slíkt verður gert. Því langar mig til þess að spyrja ráðherrann hvort hann muni í það minnsta nýta sér þá vinnu, því að hann kom ekki inn á hvað væri ómögulegt í því frumvarpi í sjálfu sér og voru mjög margir sem komu að því. Þetta er fyrsta spurning mín. Ég kem svo með fleiri hér á eftir.