144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

[15:50]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu. Ég kynnti mér í framhaldinu frumvarpið til laga sem málshefjandi hefur lagt fram og það er, held ég, jákvætt. Ég er að velta því fyrir mér að ábyrgð og lán falli niður við 67 ára aldur og held að fróðlegt væri að fá nánari upplýsingar um það hvernig stendur á því að það eru svo margir í þessum hópi sem skulda enn þá námslán. Það hlýtur að liggja fyrir, en ég sá það ekki í greinargerðinni. Er það af því að hópurinn hefur tekið há námslán? Eða er það vegna þess að launin eru lág? Er það vegna þess að margir í hópnum taka lán seint á ævinni? Er ástæða til að setja því einhverjar skorður?

Þetta er ekki einsleitur hópur. Það er mjög misjafnt hvernig fólk hefur það eftir að það er komið á 67 ára aldurinn. Ég velti fyrir mér hvort við ættum ekki alveg eins, og jafnvel frekar, að horfa á þá sem eru að reyna að taka námslán og þurfa á velvild viðskiptabanka að halda, þ.e. fyrir fram lán í eina önn þangað til viðkomandi nær prófum. Það eru dæmi um að fólk, jafnvel ungt fólk, fær ekki þessa fyrirgreiðslu í það hálfa ár sem það þarf.

Mér finnst vera ýmsar spurningar í þessu, það getur alveg verið jákvætt. Ég held að fróðlegt verði að fylgjast með umræðunni þegar frumvarpið sjálft verður lagt til, vegna þess að þetta er allt spurning um það hvernig við notum þá takmörkuðu fjármuni sem eru nú þegar í lánakerfinu.