144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

[15:57]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar að nýta ræðutíma minn til að ræða stórhertar innheimtuaðgerðir lánasjóðsins, sem komu mér á óvart og eru með öllu óskiljanlegar og raunar óásættanlegar. Þetta eru innheimtuaðgerðir þar sem dregnar eru fram oft áratugagamlar ábyrgðir, jafnvel óskyldra aðila, eða ábyrgðir sem eftir einkaskipti dánarbúa hafa lent á erfingjum án þess að þeim væri ljóst að hinn látni væri í ábyrgð fyrir viðkomandi námsláni. Skyndilega birtist yfirlýsing frá innheimtufyrirtæki þar sem tilkynnt er að námslán sem viðkomandi er sagður í ábyrgð fyrir hafi allt verið gjaldfellt, á það hafi fallið dráttarvextir og vanskilakostnaður og að koma verði láninu í skil eða greiða skuldina alla eða, eins og stendur í þessum bréfum orðrétt, með leyfi forseta:

„Að 15 dögum liðnum má búast við að krafan verði innheimt með atbeina dómstóla.“

Viðkomandi hafa ekki gert sér grein fyrir að þeir séu ábyrgðarmenn námslána enda hafi þeir ekki fengið tilkynningar um ábyrgð sína né hafi þeir með neinum hætti getað gert sér grein fyrir að þeir væru ábyrgðarmenn námslána fyrr en þeim berst ofannefnd tilkynning. Það hlýtur að teljast fullkomlega óásættanlegt að LÍN gangi fram með þessum hætti og krefjast verður þess að LÍN fari fram í samræmi við reglur og lög um ábyrgðarmenn, þ.e. reglurnar frá 1998 og lögin frá 2009.

Ljóst er að ný lög um ábyrgðarmenn, sem samþykkt voru 2009, voru ekki samþykkt að ástæðulausu. Vilji löggjafans var að gera að meginreglu að ekki væri krafist ábyrgðarmanna á námslánum en ef svo væri í undantekningartilfellum skyldi vera þak á ábyrgðinni og ábyrgðarmenn eiga að fá tilkynnta stöðu á reikningum á hverjum tíma.

Samtímis ber að harma að LÍN, með vitund og vilja hæstv. ráðherra mennta- og menningarmála, gengur nú harðar fram en áður í því að takmarka aðgang að námslánum og menntun. LÍN ákveður að herða lánareglur, auka kröfur um námsframvindu, sem bitnar mest á þeim sem eiga erfiðara með nám og þurfa lengri tíma til náms. Samtímis er nemendaígildum í framhaldsskólum fækkað um 916 sisvona í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár. (Forseti hringir.) Ég treysti á að hæstv. ráðherra gangi nú vasklega fram og breyti þessum ábyrgðarreglum á eldri lánum, því fyrr því betra.