144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

[15:59]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegur forseti. Við skulum byrja á því að gera okkur grein fyrir því hvaða kostnaður það er sem mundi falla á lánasjóðinn ef námslán mundu falla niður við 67 ára aldur, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur. Það yrðu 18–20 milljarðar kr. á næstu tveimur áratugum eða svo.

Eru það peningar sem við viljum ráðstafa með þeim hætti? Ég tel svo ekki vera. Ég tel hins vegar brýnt að lánasjóðurinn standi vel að upplýsingaskyldu sinni og leiðbeiningarskyldu og gæti meðalhófs.

Mér kemur í huga sagan af stúlkunni sem hafði ung að árum skrifað undir fyrir kærastann sinn. Menn vita í mörgum tilfellum, og menn muna eftir að hafa lent í slíku, ekki hvaða ábyrgð þeir eru að taka sér á hendur; og fá svo gjaldfellingu á öllu saman áratugum seinna. Það er eitthvað bogið við svona kerfi að mínu áliti.

Mér finnst hins vegar mikilvægast af öllu að við gerum okkur grein fyrir því að námslánakerfið á Íslandi er styrkjakerfi að einhverju leyti. Það vil ég sem skattgreiðandi í þessu landi að þær upplýsingar liggi fyrir fyrir hvern og einn námsmann og séu gagnsæjar og aðgengilegar þannig að það sé alveg á hreinu hvaða hluti námslánanna er lán og hvaða hluti þeirra er styrkur. Það finnst mér að fólkið sem borgar opinber gjöld á Íslandi eigi rétt á að vita.