144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

[16:04]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að tala um ábyrgðarmenn. Ég fagna málsgrein í 1. gr. sem snýr að því að við fráfall ábyrgðarmanns falli niður þau lán sem hann hafi gengist í ábyrgð fyrir. Eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson kom inn á áðan þá er mjög furðulegt það sem er í gangi núna að ef lántaki deyr fellur lánið niður en ábyrgðin fellur ekki niður þegar ábyrgðarmaður deyr; þá erfa börn og barnabörn og barnabarnabörn og barnabarnabarnabörn ábyrgðina. Þetta er eitthvað virkilega furðulegt og við hljótum að ætlast til þess að hæstv. ráðherra hlutist til í þessu máli.

Þó virðist vera að þetta sé að koma upp núna vegna þess að LÍN sé með nýjar innheimtuaðferðir, eins og ég skil þetta, og þá finnst mér rétt að skoða hvað er í gangi og hvort þetta þyki sanngjarnt.

Mig langar líka aðeins að fara út í annað. Ég man eftir máli sem ég fékk þegar ég var að vinna hjá Neytendasamtökunum sem varðaði ábyrgðarmann sem gengist hafði í ábyrgð fyrir fyrrverandi sambýliskonu. Fyrrverandi sambýliskona greiddi ekki af láninu og gengið var á ábyrgðarmanninn. Það sem hann var svo ósáttur við var að lántakandinn átti eignir og hann skildi ekki af hverju ekki var gengið að lántakandanum áður en gengið væri að ábyrgðarmanninum.

Ég sendi LÍN erindi og spurðist fyrir um þetta, hvort ekki væri örugglega fyrst gengið að skuldaranum og þess vegna farið í fjárnám hjá honum, og fékk virkilega loðin svör. Mér varð umtalsvert um þetta og hef verið undrandi á því alla tíð síðan. Er það virkilega þannig að LÍN ræðst bara á þann sem liggur best við höggi? Í staðinn fyrir að ganga að lántakandanum og gera fjárnám hjá honum er vaðið í ábyrgðarmanninn sem kannski þarf að greiða einhverjar milljónir á sama tíma og lántakandinn á eignir en ekkert er gert í því.

Þessu finnst mér virkilega þurfa að svara.