144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

[16:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, enn á ný og öðrum hv. þingmönnum fyrir umræðuna.

Hvað varðar laun kennara er rétt að halda því til haga að laun framhaldsskólakennara, gangi nú allir samningar eftir, geta hækkað um 30% frá því sem áður var, sem ég tel að sé auðvitað skref í rétta átt. Við hljótum að geta verið sammála um það, ég og hv. þingmaður.

Hvað varðar afstöðu mína til þess frumvarps sem lá hér frammi hjá síðustu ríkisstjórn og hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir innti mig aftur eftir, sem hv. þingmaður sagði að hefði verið vel undirbyggt, þá vísa ég aftur til þess að það var mat núverandi 4. þm. Norðaust., hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, að það frumvarp væri ekkert sérstaklega vel undirbyggt vegna þess að það vantaði upp á kostnaðarmatið á það. Fyrir lá mat fjármálaráðuneytisins um að töluvert meiri kostnaður mundi falla til en menntamálaráðuneytið taldi að yrði þannig að það vantaði upp á undirbúninginn hvað það mál varðaði. Ýmislegt þar var ágætt og alveg hægt að nota margt úr þeirri vinnu.

Síðan vil ég nefna, virðulegi forseti, að það er áhugavert að hugsa til þess að nú eru 67 námsmenn eldri en 50 ára enn í námi og nema námslán og skuldir þeirra um 729 milljónum. (Gripið fram í: Hefurðu ekki heyrt talað um …?) Það þýðir að þessir námsmenn munu ekki ná að klára að greiða þessar skuldir niður. Þetta kallar auðvitað á að við þurfum að endurhugsa þetta.

Ég vil nefna t.d. Norðmenn hérna rétt í lokin. Þar er gert ráð fyrir því í grófum dráttum að við námslok breytist 40% af lánsfjárhæðinni í styrk en hitt sé síðan greitt upp fyrir 67 ára aldur. Það getur þýtt að afborgun vegna námslánanna verði mjög þung.

Höfum þetta í huga, virðulegi forseti, þegar við ræðum hér um lánasjóðinn. Meðallengd greiðslutímans er að aukast, aldur lánþeganna er að hækka og upphæðirnar eru að hækka. (Forseti hringir.) Þetta þarf allt að hafa í huga þegar við ræðum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.