144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

gagnasafn RÚV.

60. mál
[16:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil að sjálfsögðu þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Hér er hreyft við mikilvægu máli. Ég tek undir með hv. þingmanni að hér er ekki til umræðu eða á að hafa áhrif á afstöðu hv. þingmanna mismunandi skoðanir á hlutverki Ríkisútvarpsins, fjármögnun þess eða annað sem að þessari stofnun snýr. Hér er um að ræða menningararf okkar, sögu og aðgengi að honum. En ég vil þá vinda mér í að svara þeim tölusettu spurningum sem hv. þingmaður hefur beint til mín.

Fyrsti liður snýr að því hvernig varðveislu hljóð- og myndefnis Ríkisútvarpsins er háttað. Þá er til að taka að hjá Ríkisútvarpinu var nýlega tekinn í notkun nýr safnagrunnur fyrir útvarps- og sjónvarpsefni sem ber heitið Kistan. Í gegnum Kistuna er hægt að hlusta og horfa á hljóð- og myndefni sem er geymt á stafrænu formi. Gagnagrunnur Kistunnar er rekinn í Efstaleiti og eldra safnefni er enn þá varðveitt á lakkplötum, segulböndum og myndböndum í Efstaleiti en einnig hjá Kvikmyndasafni Íslands.

Safnadeild Ríkisútvarpsins hefur umsjón með stafrænni yfirfærslu eldra efnis á hliðrænu formi. Vinna hefur staðið yfir við að koma upplýsingum um eldra efni af spjaldskrám yfir í gagnagrunna Kistunnar þannig að upplýsingar um allt safnefnið verði aðgengilegar á einum stað. Ríkisútvarpið hefur unnið að áætlun um yfirfærslu á eldra safnefni úr svonefndri Gullkistu yfir í Kistuna þar sem metinn hefur verið kostnaður við fjárfestingu í búnaði, vinnu við stafræna yfirfærslu, réttindagreiðslu til höfunda og uppsetningu á nýjum vef til að gera efnið aðgengilegt almenningi.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður um hvernig ráðherra hyggist bregðast við fregnum af því að hljóð- og myndbandasafn Ríkisútvarpsins liggi undir skemmdum. Þá vil ég taka fram að unnið er að gerð nýs samnings samkvæmt 4. mgr. 2. gr. laga um Ríkisútvarpið, nr. 23/2013. Í þeim samningi verður nánar fjallað um stafræna yfirfærslu á áður útsendu efni úr Gullkistunni og með hvaða hætti efnið verður gert aðgengilegt almenningi.

Ég vil vekja athygli þingheims á því sem fram kemur í skýringum með frumvarpi til fjárlaga 2015 en þar segir að fjármögnun Ríkisútvarpsins sé nú til skoðunar hjá stjórnvöldum samhliða því að unnið er að gerð nýs samnings um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Það þarf þá að huga að þessum þáttum við þá vinnu.

Í þriðja lagi er þeirri spurningu beint til mín af hálfu hv. þingmanns hvort ráðherra telji að hljóð- og myndbandaefni Ríkisútvarpsins eigi að vera aðgengilegt almenningi og ef svo sé, með hvaða hætti ráðherrann telji að aðgengið eigi að gera. Eins og fram kom í svari mínu við annarri spurningunni er gert ráð fyrir að fjallað verði um þessi mál í nýjum samningi við Ríkisútvarpið um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.

Þá má nefna að ráðuneytið er með í smíðum frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum sem er á þingmálaskrá yfirstandandi löggjafarþings. Í frumvarpinu verður að finna mikilvægt ákvæði sem tengist Gullkistunni en tilgangur ákvæðisins er að auðvelda útvarpsstöðvum uppgjör við rétthafa þegar veittur er aðgangur að áður útsendu efni í safni þess, t.d. eftir pöntunum, með því að það er gert aðgengilegt á netinu eða þegar um endurútsendingu er að ræða.