144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

gagnasafn RÚV.

60. mál
[16:21]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hreyfir hér afar þörfu máli sem er vissulega hafið yfir allar flokkspólitískar þrætur, og ég þakka henni fyrir það. Einnig finnst mér hæstv. ráðherra taka vasklega til svara hér. Mér hefði þó þótt sem hann hefði að minnsta kosti mátt leyfa okkur að skyggnast inn í hugskot sitt um afstöðu hans gagnvart því hvernig á að heimila almenningi aðgang að þessu efni. En það gleður mig alla vega að vita til þess að hjá Ríkisútvarpinu eru menn til dæmis að draga upp skrá, sem á að vera aðgengileg öllum, um það hvaða efni það er sem er til í Gullkistu Ríkisútvarpsins. Mér virtist af svari hæstv. ráðherra að þetta snerist að verulegu leyti um höfundarétt. En er það ekki rétt munað hjá mér, hæstv. forseti, sem hæstv. ráðherra svarar kannski, að sumt af þessu efni er orðið svo gamalt að það fellur ekki undir höfundarétt? Má ekki koma því strax á netið? Þar eru margar gullperlur.

Og hvað með fréttir Ríkisútvarpsins? Það er enginn höfundaréttur á þeim. Má ekki gera reka að því að koma öllum fréttum, með þeirri tækni sem við höfum yfir að ráða, á netið okkur til aðgengis?