144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

fjármálastöðugleikaráð og kerfisáhættunefnd.

43. mál
[16:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka svörin og umræður og athugasemdir hér. Ég held að ég verði að taka undir að það er ekki hægt að segja að menn hafi verið að flýta sér nein ósköp. Sérstaklega var ég hissa á því að kerfisáhættunefndin hefði ekki verið sett fyrr af stað, einfaldlega vegna þess að henni er ætlað það hlutverk sérstaklega að búa mál í hendur á fjármálastöðugleikaráði. Eins og hér kom fram kom hún fyrst saman til fundar á dögunum.

Ég tek sömuleiðis undir að það er mikilvægt að starfsreglur fjármálastöðugleikaráðs séu vandaðar. Það er mikið lagt undir. Nú erum við að reyna að búa þannig um hnútana að aldrei aftur þurfi neitt að velkjast í vafa um það hvar ábyrgðin liggur í þessum efnum á góðum tímum sem og viðsjárverðum, að það sé bara algerlega á hreinu að þarna er það tæki sem er ofan á öllu saman til þess að axla yfirábyrgðina á fjármálastöðugleika í landinu.

Það má auðvitað segja að menn hafi þá ekki miklar áhyggjur úr því að þeir flýttu sér ekki meira en þetta.

Nú ætla ég ekki, herra forseti, að spá hér einhverjum ósköpum á næstu missirum og allra síst á þessum degi, mánudeginum 6. október, en engu að síður sjáum við aðeins blikka viss viðvörunarljós um að ójafnvægi af vissum toga sem við þekkjum af svo biturri reynslu frá fyrri tíð sé að byrja að byggjast upp, búa um sig á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu, birtast í að viðskiptaafgangur er að snúast yfir í viðskiptahalla. Eins voru nefnd hér mjög stór afdrifarík mál á sviði fjármála sem auðvitað skiptir miklu fyrir fjármálastöðugleika að vel takist til að leysa úr, þ.e. afnám gjaldeyrishaftanna og hvernig aflandskrónueignir erlendra aðila verða leystar út úr hagkerfinu, svo maður tali nú ekki um ef veiting verðtryggðra fasteignaveðlána eins og hún meira og minna legði sig á Íslandi væri dæmd ólögmæt. Það mundi heldur betur (Forseti hringir.) hrikta í, spái ég. Maður hefði alveg eins getað átt von á því að fjármálastöðugleikaráð og kerfisáhættunefnd hefðu verið á tánum frá því snemma í sumar.