144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

virðisaukaskattur af útleigu rafmagnsbíla.

49. mál
[16:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég leyfi mér að varpa örlítilli og hógværri fyrirspurn til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um það hvort hann telji koma til greina að ýta undir orkuskipti með því að afnema eða fella niður virðisaukaskatt tímabundið af útleigu rafbíla. Það vill svo til að ég og Sjálfstæðisflokkurinn erum sammála um sum meginatriði og eitt af því er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Ég veit ég þarf ekki að rifja upp fyrir hæstv. ráðherra stefnu sem umhverfisnefnd Sjálfstæðisflokksins hefur markað í þeim efnum.

Lengi hefur legið fyrir að orkuskipti í samgöngum skipta langmestu máli í að ná árangri í þeirri viðleitni að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Ég og hæstv. ráðherra urðum því væntanlega báðir himinlifandi þegar við hlustuðum á hæstv. forsætisráðherra fyrir skömmu lýsa því yfir að Ísland ætti og gæti orðið fyrsta landið til þess að skipta algjörlega út notkun á jarðefnaeldsneyti. Það er hægt. Við uppfyllum skilyrðin á öllu öðrum sviðum en samgöngum. Þess vegna eru orkuskipti í samgöngum það sem skiptir mestu máli fyrir okkur Íslendinga. Þetta var ljóst í þann mund sem ég og Sjálfstæðisflokkurinn sátum saman í ríkisstjórn. Ég vakti þá máls á þessu í ríkisstjórn þegar ég kynnti þar stofnun fyrsta hópsins sem varðaði orkuskipti í samgöngum. Sá hópur samanstóð af fulltrúum iðnaðarráðuneytisins, olíufélaganna og þeirra átta sveitarfélaga víðs vegar um landið sem höfðu áhuga á því að koma með virkum hætti að þessu máli. Svo kom hrunið og ýtti málinu út á kaldan klaka.

Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, sem var iðnaðarráðherra á eftir mér, gerði reka að því að koma málinu af stað með glæsilegum hætti. Undir forustu hennar var birt ný orkustefna sem unnin var af hópi sem komst að þeirri niðurstöðu að rafbílavæðing samgangna skipti verulega miklu máli.

Segja má að markaðurinn hafi eiginlega tekið af skarið um að það eru rafbílarnir sem við munum nota í framtíðinni. Markaðurinn hefur líka gert ýmsa bragarbót sem gerir það að verkum að innviðir eru sterkari en áður. Þannig er t.d. eitt tiltekið fyrirtæki sem ætlar að koma sér upp 200 hleðslustöðvum. Alþjóðleg fyrirtæki hafa fjárfest í nýrri tækni varðandi hleðslur sem draga miklu lengra en áður.

Við erum hins vegar sammála um það, ég og Sjálfstæðisflokkurinn, að það sem mestu skiptir eru efnahagslegir hvatar, alveg eins og Norðmenn hafa beitt. Við höfum sýnt það í verki að við teljum það vegna þess að tvær síðustu ríkisstjórnir hafa fellt tímabundið niður virðisaukaskatt af kaupum á vistvænum bílum.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki, að minnsta kosti ætti hann að íhuga það að fara þá leið án þess að ég leggi það beinlínis til núna. Mér þætti vænt um að fá viðhorf hæstv. ráðherra til þess að fella virðisaukaskatt líka niður á eignarleigur, vegna þess að (Forseti hringir.) annað væri mismunun. Það mundi sannarlega ýta undir upptöku slíkra vistvænna bíla.