144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

virðisaukaskattur af útleigu rafmagnsbíla.

49. mál
[16:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Eins og við vitum er mjög mikið að gerast á alþjóðlega vísu hvað snertir orkuskipti í samgöngum almennt. Ég vil byrja á því að taka það skýrt fram að ég er mjög hlynntur þeirri breytingu sem hefur átt sér stað og við getum haldið áfram að ýta undir á Íslandi, ekki síst umhverfisins vegna en líka í efnahagslegu tilliti. Það kann að vera mjög gjaldeyrissparnaði og orkusparandi reyndar líka að fara þá leið, en það er erfitt að sjá fyrir inn í mjög langa framtíð hvernig þessi mál munu þróast.

Hér er sérstaklega spurt um það hvort til greina komi að fella niður virðisaukaskatt af útleigu rafmagnsbíla gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn leigutíma með svipuðum hætti og heimilt er samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt. Ég get eiginlega ekki annað en tekið þessa fyrirspurn inn í aðeins stærra samhengi fyrst áður en ég svara henni beint og efnislega. Það stærra samhengi er sú heildarendurskoðun á virðisaukaskattslögunum sem þegar er hafin og birtist m.a. í frumvörpum fyrir þinginu.

Meginefni þessarar heildarendurskoðunar er að einfalda og gera virðisaukaskattskerfið skilvirkara. Eins og áður hefur komið fram tel ég að slík heildarendurskoðun sé mjög tímabær, enda virðisaukaskattskerfið stærsta einstaka tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs og hefur það ekki sætt heildarendurskoðun síðan á tíu ára afmæli sínu árið 1990.

Undanfarin ár hefur það færst í vöxt að lögfesta ýmsar heimildir til sérstakra endurgreiðslna eða niðurfellinga á virðisaukaskatti. Þar er um að ræða ýmis ólík svið og orkuskipti í samgöngum er eitt þeirra sviða.

Mér finnst það vera mjög til umhugsunar fyrir okkur hér á Alþingi hvort þessi leið, leið undanþágna, sé heillavænleg þróun. Ég er almennt þeirrar skoðunar að ekki sé æskilegt að nota virðisaukaskattskerfið sem eins konar smástyrkjasjóð. Það væri nærtækara að stuðningur eins og sá sem með slíku birtist færi fram á fjárlögum á viðeigandi fjárlagalið. Einnig að framkvæmdin á veitingu ívilnunar væri í höndum þess opinbera aðila sem færi með viðkomandi málaflokk, þar lægi jafnframt sérþekkingin.

Sérstakar endurgreiðsluheimildir þurfa almennt að vera vel afmarkaðar og það þarf að vera skýrt hver á rétt á endurgreiðslunni og hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt. Endurgreiðslur eru almennt fremur mannaflsfrekar og þegar á heildina er litið tel ég heppilegra að starfsfólk skatt- og tollakerfisins sinni hefðbundinni framkvæmd þar sem verkefnin eru næg fyrir.

Hvað þetta ákveðna tilvik varðar er óhjákvæmilegt að minnast á að það er eðlismunur á þeirri hugmynd sem fram kemur í fyrirspurninni annars vegar og hins vegar ákvæði XXIV til bráðabirgða, en það ákvæði tekur til innflutnings og sölu á ákveðnum tegundum af vörum, þ.e. rafmagnsbifreiðum, vetnisbifreiðum og tengiltvinnbifreiðum.

Útleigan flokkast hins vegar sem sala á þjónustu, ekki sala á vöru. Endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu eru sjaldgæfari en sérstakar endurgreiðslur eða niðurfelling virðisaukaskatts vegna kaupa á tilteknum vörum. Almennt er talið enn þá vandmeðfarnara að sinna slíkum endurgreiðslum en þeim sem eru vegna sölu á vörum sem flestar eru fluttar inn og afgreiðast af tollyfirvöldum.

Af öllu þessu sögðu má kannski ráða að ég er þeirrar (Gripið fram í.) skoðunar að ekki sé heppilegt að stuðla að orkuskiptum í samgöngum með þeirri aðferð sem lýst er í fyrirspurninni og gengur út á að fella niður virðisaukaskatt af útleigu rafmagnsbíla. En þar sem við ætlum áfram að vinna að heildarendurskoðun virðisaukaskattskerfisins finnst mér eðlilegt að gildistími ákvæðis til bráðabirgða XXIV verði framlengdur. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur um þessar endurgreiðslur eru þær talsvert notaðar og það sem af er ári 2014 hafa þegar verið felldar niður tæplega 140 millj. kr. í formi virðisaukaskatts vegna þeirra bifreiða sem falla undir ákvæðið.