144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

uppbygging á Kirkjubæjarklaustri.

46. mál
[17:16]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Við þurfum að gera okkur ljóst strax í upphafi, ég er nú ekki sammála kollega mínum, hv. þm. Páli Val Björnssyni, að fyrst og fremst í forgangsröðun heimamanna hafi verið það að fá 900 milljóna hús. Ef maður spyr heimamenn að ef þeir fengju tæpan milljarð hvað þeir mundu gera við peninginn segðu langflestir að þeir vildu fá ljósleiðara heim til sín, sem kostar 300–400 milljónir í þessu samfélagi, og þriggja fasa rafmagn. Það mundi efla atvinnusköpun í því samfélagi langtum meira en nokkur önnur einstök aðgerð.

Það breytir því ekki að við erum ekki að hverfa frá uppbyggingaráformum og þá í stíl við það sem áður hafði verið unnið. Nefndinni sem er sett á laggirnar núna með heimamönnum og Vatnajökulsþjóðgarði er einmitt ætlað það verkefni að vinna hratt og vel svo mögulega megi koma fyrir tillögum í fjárlagagerðina núna í haust ef menn komast hratt og vel að skynsamlegri niðurstöðu.

Ég verð að segja alveg eins og er að þær hugmyndir sem fóru af stað með gestastofum í anda þess sem byggt var á Skriðuklaustri, eins glæsilegt og það er, sem fer 25, 30, jafnvel 40% fram úr áætlun og kostar tæpar 700 milljónir, að halda áfram á þeirri braut að eyða fjármunum af þeirri stærðargráðu úr ríkissjóði í gestastofur held ég að sé hreinlega illa farið með opinbert fé.

Ég vil nefna að sú leið sem var farin með gestastofuna á Hornafirði, undir Vatnajökulsþjóðgarði, að þar er Vatnajökulsþjóðgarður að leigja fyrir sirka 4 milljónir á ári, ef ég man rétt, hús sem var endurgert og rúmar miklu betur þá starfsemi sem þarna er.

Ef við fyndum einhverja sambærilega hugmynd og leið á Kirkjubæjarklaustri en gætum á sama tíma komið (Forseti hringir.) til stuðnings heimamönnum á þeim sviðum sem þeir þurfa helst að fá stuðning frá ríkinu held ég að við séum á mjög góðri leið.