144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

matarsóun.

47. mál
[17:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða fyrirspurn til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um matarsóun, sem er sá þáttur í daglegu lífi sem fær sífellt meiri athygli vegna þess að hann er gríðarlega mikilvægur.

Fyrirspurnin er í tveimur liðum og hljóðar fyrri spurningin svo: Hefur verið kannað hve miklum mat er hent hérlendis á ári hverju? Og í öðru lagi: Hafa verið kannaðir möguleikar á að draga úr matarsóun með markvissum aðgerðum, t.d. með því að fjarlægja „best fyrir“ merkingar á völdum vörum eða skylda matvöruverslanir til að gefa til góðgerðamála mat sem ella yrði hent?

Virðulegi forseti. Þetta er málefni sem er þess eðlis að við höfum kannski of mikla tilheigingu til þess að horfa fyrst og fremst á ábyrgð einstaklingsins og hvers og eins, hvernig hann hagar sér í búðinni og heima hjá sér o.s.frv. En það er ekki síður mikilvægt að horfa til þess hvað er á valdi stjórnvalda að gera. Við vitum til að mynda samkvæmt nýlegum rannsóknum að 60% Bandaríkjamanna henda mat vegna þess hversu ruglandi merkingarnar eru sem eru síðasti neysludagur og síðasti söludagur. Neytendur rugla þessum merkingum saman og eru þá of fljótir á sér að henda mat.

Í Bretlandi er gert ráð fyrir að nýjar leiðbeinandi reglur stjórnvalda hvað þetta varðaði sérstaklega hafi dregið úr matarsóun um 20%, þ.e. að menn urðu einfaldlega meðvitaðri um það hvað þessar merkingar þýddu. Og svo má segja að við getum treyst nefinu betur en við erum kannski vön í okkar daglega neyslumynstri til þess að finna út úr því hvort óhætt sé að nýta matinn eða ekki.

Stjórnvöld geta líka hvatt til nýsköpunar í matarframleiðslu og matarþróun, þau geta stuðlað að átaksverkefnum eða einhverju slíku eða stutt við nýtingu með rannsóknarstyrkjum eða öðrum slíkum aðferðum.

Ég veit að hæstv. ráðherra hefur vakið máls á matarsóun og gerði það ef mig minnir rétt í tengslum við umhverfisþingið síðast og ég hef svolítið verið að bíða eftir því hvað fylgi á eftir. Því vil ég spyrja: Hvað er það sem hæstv. ráðherra ætlar í raun að beita sér fyrir í þessum efnum sem stjórnvald? Það er engan veginn fullnægjandi að beina ábyrgðinni á þessum mikla samtíðarvanda einungis til heimilanna heldur er um að ræða það stórt viðfangsefni að ráðherra með metnað ætti að hafa hér ítarleg svör.