144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

matarsóun.

47. mál
[17:27]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir umræðuna. Það vill nú þannig til að ég og hv. málshefjandi erum flutningsmenn á þingsályktunartillögu um að minnka umfang matarsóunar og að ráðist verði í aðgerðir gegn matarsóun. Gott er að heyra að ráðherra er nú þegar að vinna í þessum málum og ég vil í rauninni hvetja hann til þess að hlusta á umræðuna, sem mun þá fara fram hérna á miðvikudaginn, og taka tillit til umsagna sem koma, því að mjög mikilvægt er að sá starfshópur sem mér heyrist að sé vel valinn skili góðu verki. Það vantar ekkert upp á að við skipum nefndir og hópa hér á Íslandi og oft verður kannski ekki mikið úr. En þarna er hægt að sameina þetta tvennt í rauninni. Ég hvet ráðherra til að hlusta á eða taka mið af þeirri umræðu sem fer fram og skoða þingsályktunartillöguna vegna þess að hún snýst, eins og hv. málshefjandi kom inn á, um svo margt annað en neytandann, þó að fókusinn hafi alltaf eða mikið til verið á honum. Lagabreytingar og ýmislegt annað þarf að koma til.