144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

matarsóun.

47. mál
[17:28]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil á sama hátt þakka málshefjanda fyrir að koma með þetta mikilvæga málefni. Matvæli eru mjög mikilvæg auðlind og má alveg búast við að við getum staðið frammi fyrir því að sú auðlind verði ekki endalaus og þess sér stað nú þegar. Það eru matvæli eins og kakó, ekki er orðið eins auðvelt að ná í það og var hér áður fyrr.

Við erum af kynslóð sem hefur haft í rauninni ofgnótt af öllu og við höfum kannski ekki velt því fyrir okkur að það skiptir máli að fara vel með. Þess vegna er það sérstakt fagnaðarefni að menn skuli vera farnir að velta fyrir sér hvernig þeir geti farið betur með þessa auðlind. Ég vil líka taka undir það að miklu máli skiptir að þeir sem minna eiga geti þá notið góðs af því sem ekki selst. Það er fagnaðarefni að heyra það sem ráðherra sagði að verið sé að rýmka reglugerð varðandi það að gefa megi mat sem er kominn á „best fyrir“.