144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

matarsóun.

47. mál
[17:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum ágæt svör og ágæta yfirferð. Ég hlakka til að fylgjast með framvindu þessara mála því að þarna erum við að mörgu leyti að feta fyrstu skrefin í að auka vitund um þennan mikilvæga málaflokk hér á landi.

Mig langar í síðari ræðu minni við þetta tilefni að beina sjónum okkar að þeirri staðreynd að sóun, alveg sama hvaða nafni hún nefnist, hvort sem varðar matvæli eða að kaupa sér oftar heimilistæki en maður þyrfti að gera eða kaupa oftar bíla en maður þarf að gera o.s.frv., örvar hagvöxt. Það er hin vandræðalega innri mótsögn í hagkerfi nútímans. Eftir því sem fólk kaupir mikið meira en það þarf, alveg sama hvað það er, þeim mun öflugri verður hagvöxturinn. Það er því okkur til áminningar um nákvæmlega þetta þegar við horfum til matarsóunar, að meðan við skoðum ákveðna eiginleika eða breytur sem sýna að samfélagið sé ekki á réttri leið höldum við okkur samt við ákveðna grundvallarbreytu, sem er hagvaxtarmælingin, sem segir okkur að við séum á réttri leið. Þetta var mér mjög mikið umhugsunarefni þegar við vorum í okkar brasi í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þegar við sáum að eftir því sem hagvöxturinn átti erfiðara uppdráttar þeim mun meiri árangri náðum við í samdrætti losunar gróðurhúsalofttegunda, þ.e. hagkerfi í kreppu dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er því heilbrigðismerki að því leytinu til þegar hagvöxturinn dregst saman og er okkur áminning um það að enginn einn mælikvarði er þeirrar gerðar að hann dugi okkur til þess að meta það hvort samfélag sé á réttri leið eða hvort það búi yfir hagsæld eða þroska. Einn af mælikvörðunum er hvernig við förum með matinn okkar.