144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

uppsagnir og fæðingarorlof.

174. mál
[17:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég legg hér fram fyrirspurn um mjög mikilvægt mál vegna þess að við Íslendingar erum mjög stolt af fæðingarorlofslögum okkar. Við höfum verið dugleg að kynna þau á erlendum vettvangi og það hefur ríkt mjög góð samstaða þvert á flokka um að farin hafi verið rétt leið í því að breyta þessum lögum á sínum tíma í þá veru sem er kveðið á um í löggjöfinni sem við þekkjum nú.

Í 29. gr. laganna og líka þeirri 30. eru mjög skýr ákvæði um að það megi ekki segja fólki upp í fæðingarorlofi né heldur fólki sem er á leið í fæðingarorlof og hefur tilkynnt um það. Þar er sagt að ef til komi einhverjar breytingar á vinnustaðnum eigi fólk a.m.k. rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda að fæðingarorlofi loknu. Það eru hins vegar ákveðnir fyrirvarar í 30. gr., þ.e. að það megi ef gildar ástæður séu fyrir hendi segja aðila upp með skriflegum rökstuðningi. Við vitum alveg hvað það á við. Það á bara við í mjög þröngum skilningi en ekki þeim víða skilningi sem ég held að menn nýti sér við túlkun greinarinnar á vinnumarkaði í dag. Ég er sannfærð um að menn túlka þessa grein í fæðingarorlofslögunum allt of frjálslega.

Þetta skiptir mjög miklu máli fyrir okkur vegna þess að ég held að við flest hér inni þekkjum því miður einstaklinga sem hefur verið sagt upp störfum í fæðingarorlofi. Ég sjálf þekki fleiri en einn, fleiri en tvo, fleiri en þrjá og fleiri en fjóra. Það eru ekki bara konur, það eru líka karlar. Það er dálítið áberandi í einum geira sérstaklega á hinum almenna markaði.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra hvort það liggi einhvers staðar fyrir upplýsingar um það hversu mörgum einstaklingum sem eru í fæðingarorlofi eða á leið í fæðingarorlof hefur verið sagt upp störfum þrátt fyrir þessi lagaákvæði og þá líka hvort það sé einhver eftirfylgni með því hvort t.d. um hagræðingu eða samdrátt hafi verið að ræða. Er eitthvað fylgst með því miðlægt hvort raunveruleg hagræðing eigi sér stað að uppsögn lokinni?

Það skiptir máli, virðulegi forseti, að við sýnum það mjög skýrt og sendum skýr skilaboð út á vinnumarkaðinn að um löggjöf eins og fæðingarorlofslöggjöfina geti menn ekki gengið af léttúð. Við vitum að það er þannig í dag. Því þurfum við að taka höndum saman hér í þessu rými um að taka mjög hart á brotum á þessari löggjöf. Þetta eru einhver alvarlegustu brot á löggjöf sem við verðum vitni að vegna þess að fólk er svo varnarlaust í þessari stöðu.