144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

uppsagnir og fæðingarorlof.

174. mál
[17:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það kom skýrt fram hjá mér að ég tel að hin formlega hlið málsins sé í lagi. Það er hins vegar spurning hvernig menn umgangast lögin sem við setjum á þingi.

Stéttarfélögin hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna en þau geta líka oft og tíðum, og þá kannski ekki síst á tímum samdráttar, verið í mjög klofinni stöðu gagnvart því þegar þau vilja ráða sínu fólki heilt. Við sem höfum skoðað þessi mál vitum einfaldlega að stéttarfélög hafa ráðlagt fólki sem hefur verið sagt upp í fæðingarorlofi og leitað hefur til þeirra, ungu fólki, að fara ekki áfram með sín mál vegna þess að það geti haft skaðleg áhrif á atvinnuleit fólksins.

Þetta eru góð ráð sem þau gefa þeim persónulega þó að þau séu vond fyrir samfélagið í heild. Þetta er stemningin á vinnumarkaði. Það hefur skapast þannig stemning á vinnumarkaði að ef fólk er með læti lendir það í vandræðum þegar það ætlar að sækja um vinnu annars staðar. Það er sérstaklega í ákveðnum geirum eins og ég nefndi áðan. Ég held að hæstv. ráðherra ætti einmitt að hafa áhyggjur af þeirri staðreynd sem hún nefndi áðan, þ.e. hversu fá mál berast til kærunefndarinnar sem hlýtur að fela það í sér að fólk er ragt við að leita réttar síns. Af hverju er það?

Virðulegi forseti. Ég tel að það skipti mjög miklu máli að við grípum til einhverra úrræða hér til að tryggja að þessi löggjöf þjóni tilgangi sínum. Ég held að við ættum að hefja rannsókn á því hvernig þessari löggjöf er fylgt eftir og hvernig menn umgangast hana. Svo finnst mér mjög góð tillaga sem kom fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar að það væri hugsanlegt að hafa tilkynningarskyldu (Forseti hringir.) ef uppsagnir yrðu hjá fólki sem væri í fæðingarorlofi eða á leið í fæðingarorlof.