144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

skipan í embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

180. mál
[17:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er gott að fá þau fram.

Mig undrar nokkuð að 36. gr. starfsmannalaganna sé beitt við þessar aðstæður því að rökin sem hæstv. ráðherra færði hér fram fyrir skipaninni eru auðvitað rök sem eru fullkomlega lögmæt rök veitingarvaldsins við veitingu embættis í kjölfar auglýsingaferlis. Hæstv. ráðherra hefði til dæmis verið í lófa lagið að auglýsa eftir lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu og taka fram í auglýsingunni að þess væri sérstaklega vænst að lögð yrði áhersla á átak gegn heimilisofbeldi á höfuðborgarsvæðinu. Ég fagna mjög þeirri áherslu, en hún er málefnaleg efnisrök sem geta alveg hjálpað til við skipan í kjölfar auglýsinga.

Með sama hætti er hæstv. ráðherra bundinn af jafnréttislögum. Þar sem kona hefur ekki áður gegnt þessu embætti og þar sem konur eru í minni hluta meðal lögreglustjóra er það líka málefnaleg ástæða fyrir hæstv. ráðherra, við veitingu embættis í kjölfar auglýsingar, að vísa til kynferðis.

Ég vil ítreka að í 36. gr. starfsmannalaga er heimild en efnisrök þurfa að vera fyrir því að beita henni. Ég ítreka það sem ég hef sagt hér áður að ég sé ekki efnisrökin í þessu tilviki. Hér er um eitt af mikilvægari embættum í réttarvörslukerfinu að ræða. Það skiptir máli að tryggja hlutleysi þess sem með það fer frá hinu pólitíska valdi. Í ljósi þess hefði ég talið eðlilegt að embættið hefði verið auglýst og allra þessara málefnalegu sjónarmiða getið í auglýsingu og síðan verið skipað í embættið á forsendum þess sem kæmi út úr slíkri auglýsingu.