144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að eiga orðastað við formann umhverfis- og samgöngunefndar, hv. þm. Höskuld Þórhallsson, um samgönguáætlun og fjárlögin eins og þau liggja fyrir.

Það blasir við mikill niðurskurður á samgönguáætlun í fjárlögum. Samgönguáætlun hljóðaði upp á 23 milljarða en í fjárlögum er einungis ætlaðir 20 milljarðar til samgöngumála heilt yfir.

Ef við byrjum á nýframkvæmdum eru einungis áætlaðar 850 milljónir í nýframkvæmdir. Sá peningur mun allur fara í viðhald vegna þess að það vantar eðlilega mikið viðhald á héraðs- og tengivegum vítt og breitt um landið. Það á að skera niður 700 milljónir í vetrarþjónustu og verkefni sem eru ekki samningsbundin eru í algjörri óvissu, framkvæmdir eins og Vestfjarðavegur 60 og Dýrafjarðargöng. Þetta kom fram í máli hæstv. ráðherra um daginn.

Ég vil bara minna hv. þm. Höskuld Þórhallsson á, af því hann var í fréttum um daginn og talaði um að fyrri ríkisstjórn hefði komið sérstaklega illa fram við Vestfirðinga í samgöngumálum, að þá voru mestir fjármunir lagðir í Vestfirði, 3–4 milljarðar, fyrir utan jarðgangaframkvæmdir á því kjörtímabili.

Innanlandsflugið verður fyrir miklum niðurskurði og flugvellirnir. Ríkisstyrktar leiðir eru í uppnámi, flugvellir eins og á Bíldudal, Gjögri, í Vopnafirði, Þórshöfn og á Höfn.

Það er mikill niðurskurður í hafnarframkvæmdum. Menn sögðu í kjördæmaviku að það væri brandari sem var lagt í Hafnabótasjóð í ár. Það eru einungis ætlaðir fjármunir í Bakka og Vestmannaeyjahöfn.

Það er auðvitað hneyksli að skera algjörlega niður í samgöngumálum (Forseti hringir.) landsmanna núna þegar menn ættu að hafa möguleika á því að spýta í lófana og fara að leggja fé (Forseti hringir.) í samgönguframkvæmdir í landinu.