144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég naut þeirra forréttinda fyrir nokkrum árum að leiða flutning frumvarps þingmanna úr öllum flokkum um lögfestingu á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er eftir því tekið að við skulum hafa gengið svo langt að lögfesta sáttmálann líkt og Norðmenn, einir annarra Norðurlandaþjóða, hafa gert og eftir þeirri þverpólitísku samstöðu sem myndaðist á þingi um það mál. Sú ríka samstaða sem verið hefur hér í þinginu um réttindi barna og barnavernd skiptir gríðarlega miklu máli, en forsenda hennar er sú að hagsmunir barnsins séu í forgrunni en þeim sé ekki blandað saman við byggðasjónarmið, atvinnuhagsmuni eða önnur sjónarmið.

Ástæða er til þess að minna á þetta hér vegna þess að það veldur áhyggjum ef það fagráðuneyti sem fer með barnavernd í landinu hlustar ekki á ráðleggingar fagaðila eða sjónarmið barnaverndarnefnda um land allt þegar um er að ræða mikilvægar stofnanir í barnavernd. Það bætist svo við að ráðuneytið er að huga að því að flytja Barnaverndarstofu út á land, ekki af faglegum ástæðum heldur af einhverjum allt öðrum ástæðum.

Þegar við nú á skömmum tíma höfum fengið tvö dæmi um að í því ráðuneyti sem með málin fer séu önnur sjónarmið en hin faglegu um hagsmuni barnsins í forgrunni er full ástæða til að þingið gæti vel að og fylgi því eftir að þau lög sem það hefur sett, um að hagsmunir barnsins eigi að ráða ákvörðunum í málum en ekki sérhagsmunir, sé fylgt eftir (Forseti hringir.) af framkvæmdarvaldinu.