144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni höfum oft verið sökuð um það að vilja leggja íslenskan landbúnað í rúst með því einu að impra á og vilja ræða breytingar á því fyrirkomulagi sem við búum við í dag í landbúnaðarkerfinu og í styrkjakerfinu sem fylgir því. Menn í þessum sal hafa ekki einu sinni verið tilbúnir til að eiga við okkur samtal um breytingar neytendum og bændum hugsanlega til hagsbóta. Allar breytingartillögur frá Samfylkingunni hafa verið úthrópaðar sem voðaverk til eyðileggingar á íslenskum landbúnaði. Menn geta skoðað þingtíðindi, farið í gegnum ræðurnar og séð þess stað í þeim.

Eitt af því sem við höfum lagt til er að afnema undanþágur í mjólkuriðnaði. Það gerðum við árið 2004 þegar við stóðum gegn því að sett væri í lög undanþága fyrir mjólkuriðnaðinn frá samkeppnislögum og síðan aftur 2011 þegar hv. þm. Helgi Hjörvar lagði til, með stuðningi þingflokks Samfylkingarinnar, að þessi undanþága mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum yrði afnumin. Þá stóðum við hér enn og aftur ein gegn meiri hluta þingsins í því máli og fengum hressilega að heyra það.

Í gær sáum við hins vegar í Kastljósi mjög vel dregna upp mynd af óbreyttu kerfi í mjólkuriðnaði. Það var ekki falleg mynd. Ég held að við getum öll verið sammála um það.

Ég vil því kalla eftir því að menn fari að tala af virðingu hver við annan um hugmyndir þeirra um mögulegar breytingar á þessu kerfi þannig að það verði bændum til hagsbóta og neytendum til hagsbóta. Við óbreytt kerfi verður ekki búið og ég heyri ekki betur en að þingmenn stjórnarliðsins séu hver á fætur öðrum að átta sig á því og séu tilbúnir til samstarfs um að gera á þessu breytingar. Ég segi: Látum efndir fylgja þeim (Forseti hringir.) orðum og fylkjum liði um að gera breytingar nú á þessu þingi þannig að vel við verði unað.