144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Síðastliðna helgi fór fram fjórðungsþing Vestfirðinga. Í kjölfarið voru þingmönnum sendar ályktanir þingsins. Ein af mörgum ályktunum þingsins var um húsnæðismál. Þar var meðal annars bent á nauðsyn þess að fá úrlausnir í húsnæðismálum á Vestfjörðum, mikilvægi þess að hafa bætt aðgengi að húsnæðislánum og lausnir á þeim vanda sem skapast þegar mikill munur er á byggingarkostnaði og markaðsvirði. Fram hefur komið að algengt sé að byggingarverð verði oft þrisvar sinnum hærra en markaðsvirði eigna á svæðinu, en dæmi eru um allt að sex sinnum hærri kostnað.

Virðulegi forseti. Í þessu samhengi er ánægjulegt að minna á þá vinnu sem verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála vann síðastliðinn vetur. Unnið var að lausnum á ofangreindum málum og komið fram með tillögur þess efnis. Jafnframt er afar ánægjulegt að sjá að tillögur verkefnisstjórnarinnar eru komnar í ákveðið vinnuferli og þessa dagana er unnið hörðum höndum við gerð frumvarpa er byggjast á tillögunum. Meðal annars var komið með tillögur að stofnun leigufélaga með lækkun leigukostnaðar í huga, tillögur að bættu húsnæðislánakerfi þar sem allir ættu sama rétt óháð búsetu og tillögur að bættu húsnæðisbótakerfi. Stefnt er að því að leggja fram fyrstu frumvörpin er taka á þessum mikilvægu málum strax á haustþingi.

Herra forseti. Það hefur komið á óvart í vinnslu við gerð þessara frumvarp að engin drög eru til að frumvörpum þrátt fyrir að mikil og góð vinna hafi farið fram í þessum málefnum á undanförnum kjörtímabilum. Nóg er til af skýrslum en ekki einu sinni stafkrókur í drögum að frumvarpi.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar vill láta verkin tala í málefnum heimilanna. Þess vegna hefur þessi vinna verið sett í fullan gang. Vitað er að allir verða að hafa raunverulegt val varðandi búsetuform og nauðsynlegt er að hafa þak yfir höfuðið sama hvar við búum á landinu.