144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umferðaröryggismál.

[14:10]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Umferðin er stórhættuleg og við því þurfum við að bregðast. Vil ég því þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að koma og ræða þetta mikilvæga mál með okkur hér í dag.

Á síðasta ári létust 15 í umferðinni, 177 slösuðust alvarlega og 1.040 slösuðust minni háttar, það eru 1.232 slasaðir eða látnir einstaklingar. Á sama tíma urðu um 12.300 manns fyrir áfalli, þ.e. aðstandendur þessara einstaklinga.

Útreikningar sýna að þetta eru 40–50 milljarðar í peningum fyrir utan samfélagslega þáttinn sem slysin kosta. Allir þurfa einhvern tímann að vera þátttakendur í umferðinni og flestir daglega. Umferðin verður því að vera örugg og má ekki valda fólki ótta og taka eins mikið frá okkur og raun ber vitni.

Góðu fréttirnar eru þær að hægt er að draga verulega úr þessum áhrifum. Það gerum við með því að hafa fimm stjörnu vegi, fimm stjörnu hegðun og fimm stjörnu ökutæki. Bílaframleiðendur hafa í samkeppni sinni gert flest ökutæki fimm stjörnu. Við stjórnmálamenn getum haft áhrif á að gera vegakerfið fimm stjörnu og það verður að hafa í huga þegar við ákveðum nýframkvæmdir og endurbætur að aðskilja þarf akstursstefnu, laga gatnamót, útrýma einbreiðum brúm og endurbyggja vegi. Því er mikilvægt að hefja sem fyrst stórframkvæmdir á við Suðurlandsveg, Vesturlandsveg ásamt fjölda annarra umferðarmannvirkja, eins og mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu.

Það er ekki sama hvernig umferðarmannvirki eru byggð. Því er mikilvægt að horft sé til allra staða hvað varðar öryggi umferðarmannvirkja og láta umferðaröryggismál vera rétthærri en umhverfissjónarmið. Því miður höfum við nýleg dæmi um banaslys þar sem ekki mátti raska umhverfinu við veginn og við höfum nýlegar vegaframkvæmdir þar sem umhverfi við veg skapar mikla hættu.

Stjórnmálamenn geta einnig haft áhrif á hegðun ökumanna með réttum lögum, réttum aðbúnaði og réttum aðstæðum. Því er mikilvægt að ný umferðarlög fari að líta dagsins ljós.

Ég tel þó rétt að þau drög sem voru gerð að nýjum umferðarlögum fyrir nokkrum árum verði endurskoðuð með tilliti til þeirrar þróunar sem hefur orðið í umferðaröryggismálum síðan þá.

Lagaumhverfið verður að vera þannig að allir leitist eftir að fara eftir því. Skapa verður aðstæður til að auðvelda aðilum að setja upp afþreyingarbrautir fyrir vélknúin ökutæki til að færa áhættuhegðun inn á slíka staði.

Eitt það áhrifaríkasta í umferðaröryggismálum er öflugt og sýnilegt eftirlit lögreglu. Þar höfum við verið að bæta í með tilkomu 500 millj. kr. aukaframlags til lögreglunnar sem fjölgar almennum lögreglumönnum um 44 og fjármagn til aksturs lögreglubifreiða var aukið. Þetta getum við aukið enn meira, okkur að kostnaðarlausu, með því að færa umferðareftirlit Samgöngustofu til lögreglunnar. Við það mundi sýnileiki lögreglunnar margfaldast og samhliða mundu mannafli og fjármunir nýtast mun betur í þágu umferðaröryggis.

Það er óumdeilt að réttar aðgerðir í umferðaröryggismálum snerta alla og eru þjóðhagslega hagkvæmar. Mikill og góður árangur hefur náðst í umferðaröryggismálum með auknu umferðareftirliti, tvöföldun Reykjanesbrautar, breyttum reglum varðandi ökunám og ökuréttindi svo dæmi séu nefnd og fyrir það ber að þakka.

En betur má ef duga skal. Ég trúi því að góð samvinna þings og framkvæmdarvalds geti skilað okkur fimm stjörnu árangri í umferðaröryggismálum. Forsenda þess er fræðsla og upplýsingagjöf um umferðaröryggismál og almenn vitundarvakning. Við höfum náð góðum árangri varðandi sjóslys og flugslys með markvissum aðgerðum og ekkert bendir til þess að við getum ekki náð sama árangri í umferðinni.

Því spyr ég: Hver er stefna og helstu aðgerðir stjórnvalda í umferðaröryggismálum, þá helst varðandi umferðarmannvirki og framkvæmdir, innleiðingu staðla í lög og samspil umferðaröryggis- og umhverfissjónarmiða? Einnig varðandi aukið umferðareftirlit, eins og til dæmis með flutningi umferðareftirlits Samgöngustofu til lögreglunnar, og að lokum hvort hæstv. innanríkisráðherra muni beita sér fyrir aukinni fræðslu og samstarfi framkvæmdarvaldsins og Alþingis í umferðaröryggismálum.