144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umferðaröryggismál.

[14:20]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ekki er hægt að ræða umferðaröryggi án þess að nefna viðhald vega. Viðhald á vegum landsins er nú í sögulegu lágmarki sem skapar hættur víða um land. Ekki er tekið á þeim vanda í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 sem nú er í meðförum þingsins.

Í liðinni kjördæmaviku hafa hv. þingmenn heyrt í sveitarstjórnarmönnum og ég geri ráð fyrir að þeir hafi allir bent á vandann sem við blasir, einkum er varðar umferðaröryggi, ef ekki verður bætt verulega í þann fjárlagalið sem fara á í viðhald vega. Það gerðu sveitarstjórnarmenn í Suðurkjördæmi í það minnsta. Ekki er aðeins bent á slæmt ástand stofnbrauta heldur eru tengivegir víða illa farnir, sumir hverjir eru vegir sem hafa látið verulega á sjá í ár vegna aukins fjölda ferðamanna sem fer þar um. Úr þessu verður að bæta með hærri framlögum til viðhalds vega við afgreiðslu fjárlaga.

Sveitarstjórnarmenn ræddu einnig almenningssamgöngur á fundum í Suðurkjördæmi í síðustu viku. Í samgönguáætluninni er rætt um almenningssamgöngur í tengslum við öryggissamgöngur, umhverfislega sjálfbærni og jákvæða byggðaþróun. Nú hefur fjárhæð til verksins verið skorin niður vegna hagræðingarkröfu á Vegagerðina og upphæðin hefur auk þess lækkað vegna þess að endurgreiðsluhlutfall olíugjalds hefur lækkað. Það taka sveitarsjóðirnir á sig.

Sveitarstjórnarmenn hafa lagt vinnu í að byggja upp kerfi almenningssamgangna sem byggir á því að þær leiðir sem bera sig halda samgöngum uppi á þeim leiðum sem gera það ekki. Því er það algerlega óásættanlegt að hæstv. innanríkisráðherra hafi ákveðið að kippa einni arðbærri leið út úr kerfinu á Suðurnesjum sem hefur bara verri þjónustu við íbúa þess svæðis í för með sér. Sveitarstjórnarmenn gera þá kröfu að ríkið standi við gerða samninga um almenningssamgöngur og það hljótum við líka að gera, virðulegi forseti.