144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umferðaröryggismál.

[14:22]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu því að ég tel að það sé afar brýnt að ræða það. Eins og hv. þingmaður á undan mér sagði held ég að þetta hafi verið eitt af stóru málunum í kjördæmaviku okkar landsbyggðarfólks. Vissulega er gott og göfugt markmið að vegakerfið verði fimm stjörnu, en ég held að því miður sé allt of langt í það öryggi.

Ég held að við þurfum líka að horfa aðeins út fyrir rammann. Hér var komið inn á almenningssamgöngur sem því miður hafa ekki alveg náð þeirri fótfestu sem við vildum gjarnan, bæði út frá umhverfis- og öryggissjónarmiðum, en við þurfum líka og Vegagerðin að standa bak við það að auka hér tækifæri til að sveitarfélög geti útbúið hjólreiðastíga, jafnvel á milli heilu sveitarfélaganna. Það er eitt af því sem hefur færst mjög mikið í aukana og er líka eitt af því sem þarf að tryggja öryggi gagnvart.

Undirgöng víða komu líka fram í máli sveitarstjórnarmanna þegar við funduðum með þeim, bæði fyrir fé og fólk. Þeim er stórlega ábótavant og jafnvel eru gerðar breytingar á vegum núna án þess að gera ráð fyrir því við litla þétta byggðakjarna þar sem eru til dæmis skólar. Það er gríðarlega alvarlegt að ekki skuli gert ráð fyrir þeim. Af því að við ræðum auðvitað fjárlögin er dapurlegt að ekki skuli vera lagt meira fé til vegamála en nú er gert. Það kom meðal annars fram í gær í fjárlaganefnd að það er 21 einbreið brú á Suðurlandi einu. Þetta er óviðunandi árið 2014 þótt við þurfum að forgangsraða.

Mig langar að spyrja ráðherra og málshefjanda líka: Munu þau beita sér fyrir því að sett verði aukið fé (Forseti hringir.) í vegamálin og hvar? Hvenær má eiga von á nýrri samgönguáætlun?